Sigvaldi Björn Guðjónsson, hægri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta og leikmaður Noregsmeistara Elverum, er einn af bestu nýliðum Meistaradeildarinnar í handbolta samkvæmt úttekt Handball-Planet.com.
Þar stillir handboltasíðan upp besta leikmanni í hverri stöðu en Sigvaldi, sem hefur búið frá unga aldri í Danmörku og síðar Noregi, er besti nýliðinn í hægra horninu.
Sigvaldi fór á kostum í Meistaradeildinni í vetur en hann skoraði 50 mörk í tíu leikjum eða fimm mörk að meðaltali í leik. Mest skoraði hann níu mörk á móti Wisla Plock frá Póllandi en Wisla Plock komst á endanum inn í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Íslenski hornamaðurinn hefur vakið mikla athygli undanfarin misseri en hann var fenginn frá Bjerringbro í Danmörku til Noregsmeistaranna þar sem hann er að spila vel.
Þá er hann orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu og fór með strákunum okkar á HM 2019 í Þýskalandi og Danmörku þar sem að hann stóð sig mjög vel.
