Ribe-Esbjerg vann mikilvægan sigur í danska handboltanum í dag er liðið vann sex marka sigur, 33-27, á botnliði Ringsted á útivelli.
Ribe var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10, og hleypti heimamönnum aldrei inn í leikinn í síðari hálfleik. Mikilvæg tvö stig til Esbjerg.
Ribe-Esbjerg er í baráttunni að komast í úrslitakeppnina í Danmörku en liðið er nú í áttunda sætinu, síðasta sætinu sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Þeir eru stigi á undan SönderjyskE.
Gunnar Steinn Jónsson var frábær í liði Ribe-Esbjerg en hann skoraði sjö mörk og gaf tvær stoðsendingar. Rúnar Kárason skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar.
