Körfubolti

Milwaukee Bucks með besta árangurinn yfir áramótin

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Giannis var óstöðvandi í nótt eins og oftast áður.
Giannis var óstöðvandi í nótt eins og oftast áður. vísir/getty

Sex leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt en þétt er leikið þar yfir áramótin þar sem sjö leikir fara fram í dag, Gamlársdag.

Milwaukee Bucks styrkti stöðu sína á toppi Austurdeildarinnar þegar liðið vann öruggan sigur á Chicago Bulls á útivelli. Giannis Antetokounmpo gerði 23 stig og tók 10 fráköst á 27 mínútum en Khris Middleton var stigahæstur í liði Bucks með 25 stig.

Ljóst að Bucks fer inn í nýtt ár með besta árangur deildarinnar þar sem liðið hefur unnið 30 leiki og aðeins tapað fimm.

Í Minnesota þurfti framlengingu til að útkljá leik Timberwolves og Brooklyn Nets og reyndust heimamenn öflugri þegar á hólminn var komið.

Shabazz Napier var atkvæðamestur Úlfanna með 24 stig en Gorgui Deng fór mikinn undir körfunni þar sem hann reif niður 20 fráköst í leiknum ásamt því að skora 11 stig.

Í Portland voru stórstjörnurnar í stuði þegar Phoenix Suns kom í heimsókn. Devin Booker gerði 33 stig fyrir Phoenix sem vann eftir spennandi leik.

Damian Lillard gerði 33 stig fyrir heimamenn og CJ McCollum bætti 25 stigum við. Þá var Hassan Whiteside fyrirferðamikill með 16 stig og 22 fráköst.

Úrslit næturinnar



Portland Trail Blazers 116-122 Phoenix Suns

Orlando Magic 93-101 Atlanta Hawks

Washington Wizards 123-105 Miami Heat

Chicago Bulls 102-123 Milwaukee Bucks

Minnesota Timberwolves 122-115 Brooklyn Nets

Utah Jazz 104-81 Detroit Pistons

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×