Handbolti

Seinni bylgjan: „Ég held að hvorugt liðið hafi skilið upp né niður í þessu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jónatan Þór Magnússon og Stefán Rúnar Árnason þjálfarar KA-liðsins ræða málin við Patrek Stefánsson.
Jónatan Þór Magnússon og Stefán Rúnar Árnason þjálfarar KA-liðsins ræða málin við Patrek Stefánsson. Vísir/Bára

KA-menn fóru tómhentir frá Ásvöllum um helgina eftir sex marka tap. Dómarar leiksins fengu mikla athygli frá þjálfurum beggja liða eftir leik en sérfræðingar Seinni bylgjunnar voru ekki á sama máli og ósáttir þjálfarar.

Jónatan Þór Magnússon, annar þjálfara KA-liðsins, virtist hreinlega vera furðu lostinn í viðtali eftir leikinn en Seinni bylgjan fór yfir dómgæsluna í þætti sínum í gær.

„Ég man bara ekki eftir öðrum eins leik. Annaðhvort var dómgæslan hræðileg eins og ég upplifði það á báða boga. Eða að leikmennirnir voru algjörir aular að geta ekki aðlagast línunni,“ sagði Jónatan Þór Magnússon sem þjálfar KA-liðið með Stefáni Árnasyni.

Jónatan var þó ekki bara tapsár þjálfari ef marka má viðtalið við þjálfara sigurliðsins.

„Línan hjá dómurunum í kvöld var langt frá því sem hún hefur verið í öðrum leikjum hjá okkur í vetur. Ekki bara í vetur því ég gæti örugglega tekið síðustu tímabil líka. Þetta var langt frá því sem við erum vanir. Við töluðum um það í hálfleik að reyna aðlagast þessu og ég hélt svona í byrjun að við hefðum náð því en við náðum aldrei að skilja þetta. Ég held að hvorugt liðið hafi skilið upp né niður í þessu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.

Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, sagði að það væri langt um liðið síðan að hann hafi séð viðtöl við þjálfara beggja liða þar sem hefur verið svona rosalega mikið að tuða yfir dómurum.

Seinni bylgjan fór því yfir þessi umdeildu atvik og þessa dóma þar sem enginn skildi neitt. Það má sjá þá samantekt hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Dómarnir þar sem enginn skildi neitt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×