Handbolti

Seinni bylgjan: Vilja fá Björgvin Pál aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Í Lokaskotinu í Seinni bylgjunni í gær voru Ágúst Jóhannsson og Logi Geirsson beðnir um að velja 16 manna landsliðshóp fyrir EM 2020.

Þeir voru ekki sammála um nokkrar stöður í liðinu en athygli vakti að þeir myndu báðir velja Björgvin Pál Gústavsson í EM-hópinn.

Björgvin hefur ekki leikið síðustu fimm leiki íslenska landsliðsins eftir að hafa verið aðalmarkvörður þess í rúman áratug.

Björgvin hefur leikið vel með Skjern í Danmörku í vetur og Ágúst og Logi vilja báðir fá hann aftur í landsliðið.

„Ég myndi hafa Björgvin sem markvörð númer eitt. Mér finnst hann hafa staðið sig frábærlega í dönsku deildinni. Hann hefur komið sterkur til baka eftir að hafa átt undir högg að sækja,“ sagði Ágúst.

Hann valdi Viktor Gísla Hallgrímsson í sinn hóp á meðan Logi valdi Ágúst Elí Björgvinsson.

„Munurinn á Ágústi og Viktori Gísla er að Ágúst varð meistari í Svíþjóð í fyrra og var stórkostlegur í úrslitakeppnina. Hann hefur sýnt að hann getur komið inn á stórmótum og lokað,“ sagði Logi.

Lokaskotið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×