Handbolti

Norsku stelpurnar í undanúrslit en þær sænsku sátu eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fagna sigri á HM í Japan.
Norsku stelpurnar fagna sigri á HM í Japan. EPA-EFE/FRANCK ROBICHON

Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska kvennalandsliðinu í handbolta eru komin í undanúrslit á HM í Japan eftir þriggja marka sigur á Þjóðverjum í dag.

Þórir heldur því áfram að gera frábæra hluti með norska liðið sem á enn á ný möguleika á að vinna verðlaun á stórmóti undir stjórn Selfyssingsins.

Noregur vann leikinn 32-29 og sá til þess að Þýskaland komst ekki áfram í undanúrslitin. Noregur mætir Spáni í undanúrslitunum en Holland og Rússland spila síðan í hinum undanúrslitaleiknum.

Norska liðinu nægði jafntefli en mátti alls ekki tapa. Jafntefli hefði einnig dugað þýsku stelpunum til að komast áfram.

Í undanúrslitum á HM fyrir tveimur árum voru Holland, Noregur, Svíþjóð og Frakkland. Norsku stelpurnar hafa verið í undanúrslitum heimsmeistaramótsins þrjár HM-keppnir í röð og komist í úrslitaleikinn á þeim síðustu tveimur.

Sænsku stelpurnar þurftu líka sigur í sínum leik til að komast í undanúrslitin en urðu að sætta sig við þriggja marka tap á móti Svartfjallalandi, 26-23.

Tapleikir Svía og Þjóðverjar, sem hefðu komist í undanúrslit með sigri í lokaumferðinni, þýða að þau enda bæði í fjórða sætinu í sínum milliriðli og spila því um sjöunda sætið í keppninni.

Kari Skaar Brattset var markahæst í norska liðinu með sex mörk en þær Emilie Hegh Arntzen, Stine Bredal Oftedal og Marit Rosberg Jacobsen skoruðu allar fimm mörk í leiknum. Fyrirliðinn Stine Bredal Oftedal var síðan kosin besti maður vallarins en auk fimm marka þá gaf hún 9 stoðsendingar.

Markvörðurinn Silje Margaretha Solberg varð fjórtán skot í leiknum en mörg þeirra voru afar mikilvæg á lokakafla leiksins.

Norska liðið skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiksins og var 17-16 yfir í hálfleik. Liðið vann síðan fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiks 5-1 og náði fimm marka forystu sem þær lifðu síðan á út leikinn.

Úrslitin á HM kvenna í handbolta í dag:

Milliriðill eitt
Holland - Suður Kórea 40-33
Serbía - Danmörk 26-26
Noregur - Þýskaland

Lokastaðan í milliriðli eitt:
Noregur 8
Holland 6
Þýskaland 5
Serbía 4
Danmörk 4
Suður Kórea 2

Milliriðill tvö
Spánn - Rússland 26-36
Rúmenía - Japan  20-37
Svartfjallaland - Svíþjóð

Lokastaðan í milliriðli tvö:
Rússland 10
Spánn 7
Svartfjallaland 6
Svíþjóð 5
Hapan 2
Rúmenía 0

Undanúrslitin á HM í ár:
Noregur - Spánn
Rússland - Holland

Leikur um fimta sætið:
Serbía-Svartfjallaland

Leikur um sjöunda sætið:
Þýskaland-SvíþjóðAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.