Golf

Kylfusveinn Reeds rekinn úr Forsetabikarnum fyrir að hrinda áhorfanda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Reed og kylfusveinninn Kessler Karain.
Patrick Reed og kylfusveinninn Kessler Karain. vísir/getty

Kylfusveinn Bandaríkjamannsins Patricks Reed hefur verið rekinn úr Forsetabikarnum í golfi fyrir að hrinda áhorfanda.

Áhorfendur hafa verið duglegir við að láta Reed heyra það undanfarna þrjá daga. Hann er ekki vinsælasti maðurinn í golfheiminum eftir að hann fékk tveggja högga víti á sig á Hero World Challenge mótinu í síðustu viku fyrir að færa sand til að bæta stöðu sína.

Kessler Karain, kylfusveinn og mágur Reeds, fékk nóg af hrópum og köllum áhorfenda í Melbourne í nótt og eftir þriðju umferðina hrinti hann áhorfanda.

Í kjölfarið var hann rekinn úr mótinu. Í yfirlýsingu frá Karain sagði hann að hlutverk kylfusveins sé að verja kylfinginn sinn og að áhorfandanum hefði ekki orðið meint. Eina sem hefði gerst var að hann sullaði niður bjór.

„Það er ekki til kylfusveinn sem skilur mig ekki,“ sagði Karain sem verður fjarri góðu gamni þegar Reed keppir í tvímenningi á lokadegi Forsetabikarsins í nótt.

Þar mætir Reed C.T. Pan. í tvímenningnum í nótt. Reed hefur tapað öllum leikjum sínum í Forsetabikarnum til þessa. Heimsúrvalið er með tveggja vinninga forskot á bandaríska liðið fyrir lokadaginn.

Bein útsending frá lokadegi Forsetabikarsins hefst klukkan 23:00 á Stöð 2 Golf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×