Körfubolti

Litli bróðir Curry í stuði þegar Dallas endaði átján leikja sigurgöngu Bucks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Seth Curry með boltann í leiknum í nótt.
Seth Curry með boltann í leiknum í nótt. Getty/Stacy Revere

Átján leikja sigurganga Milwaukee Bucks liðsins endaði í nótt þrátt fyrir 48 stig frá Giannis Antetokounmpo. Russell Westbrook skoraði meira en James Harden í sigri Houston Rockets og Chris Paul skoraði fimm þrista í fjórða leikhluta í sigri Oklahoma City Thunder.



Dallas lék án Luka Doncic (meiddist illa á ökkla um helgina) en það stoppaði liðið ekki í að vinna 120-116 útisigur á Milwaukee Bucks sem var búið að vinna átján leiki í röð og hafði ekki tapað leik síðan 8. nóvember.

Seth Curry og Kristaps Porzingis skoruðu báðir 26 stig fyrir Dallas en litli bróðir Steph Curry kom inn af bekknum og skoraði þessi 26 stig á 26 mínútum sem Dallas vann með tólf stigum.

Seth Curry hitti úr 9 af 15 skotum sínum þar af skoraði hann fjórar þriggja stiga körfur auk þess að taka 5 fráköst og gefa 4 stoðsendingar.

Þetta var lengsta sigurganga í sögu Milwaukee Bucks síðan verðandi meistaraliðið 1970-71 vann tuttugu leiki í röð em með Kareem Abdul-Jabbar, þá Lew Alcindor, og Oscar Robertson í fararbroddi.

Giannis Antetokounmpo var með 48 stig á 34 mínúturm auk þess að taka 14 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Kyle Korver var næststigahæstur með 17 stig en hann hitti úr fimm þriggja stiga skotum.



Russell Westbrook skoraði meira en James Harden í 109-107 endurkomusigri Houston Rockets á San Antonio Spurs. Westbrook var með 31 stig en Harden skoraði 28 stig og Houston liðið setti félagsmet með því að vinna upp 25 stiga forskot San Antonio Spurs í leiknum.

Harden hitti aðeins úr 4 af 17 skotum í fyrri hálfleiknum og Houston var 72-53 undir í hálfleik. Spurs liðið skoraði hins vegar aðeins 35 stig í öllum seinni hálfleiknum. LaMarcus Aldridge var atkvæðamestur hjá San Antonio með 19 stig og 13 fráköst.



Chris Paul tók öll völd í fjórða leikhluta þegar Oklahoma City Thunder vann 109-106 sigur á Chicago Bulls eftir að hafa lent 26 stigum undir í öðrum leikhluta. Paul setti niður fimm þrista í lokaleikhlutanum og skoraði 19 af 30 stigum sínum í fjórða. Paul var einnig með 9 fráköst og 10 stoðsendingar í leiknum.  















Úrslitin í NBA deildinni í nótt:

Phoenix Suns - Portland Trail Blazers    110 : 111    

Houston Rockets - San Antonio Spurs    109 : 107    

Memphis Grizzlies - Miami Heat    118 : 111    

Milwaukee Bucks - Dallas Mavericks    116 : 120    

Oklahoma City Thunder - Chicago Bulls    109 : 106    

Toronto Raptors - Cleveland Cavaliers    133 : 113    

Detroit Pistons - Washington Wizards    119 : 133

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×