Handbolti

Sú besta í Olís deildinni ætlaði að passa sig á því að vera hógvær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir tekur við verðlaunum sínum í gær.
Steinunn Björnsdóttir tekur við verðlaunum sínum í gær. Skjámynd/S2 Sport

Steinunn Björnsdóttir úr Fram var valin besti leikmaður fyrri umferðar Olís-deildar kvenna í handbolta í uppgjörsþætti Seinni bylgjunnar í gær.

„Það er gaman að fá þessi verðlaun en við höfum unnið neitt ennþá þannig að ég ætla að vera hógvær í kvöld,“ sagði Steinunn Björnsdóttir í viðtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Ölveri í gær. Framliðið er á toppnum í deildinni og líklegt til afreka.

„Við í Safarmýrinni viljum vinna stóru titlana,“ sagði Steinunn en er hún sjálf í toppstandi?

„Jú ætli það ekki. Ég er í ágætis standi og það eru forréttindi að fá að vera í þessu liði og með öllum þessum stoðsendingadrottningum. Ég stóla mikið á þær og er þeim afar þakklát,“ sagði Steinunn.

Hún var ekki upptekin á landsliðsæfingu fyrr um daginn eins og Svava hélt.

„Ég er reyndar ekki í þessum hóp. Hvað viltu segja um það Addi,“ spuði Steinunn og beindi orðum sínum til landsliðsþjálfarans Arnars Péturssonar sem var á staðnum sem sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Hann er að leyfa ungu og efnilegu leikmönnunum að spreyta sig. Við Framkisurnar fáum pásu í bili,“ sagði Steinunn en það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Besti leikmaður fyrri hluta Olís deildar kvenna



Seinni bylgjan valdi einnig úrvalslið Olís deildar kvenna og í því eru þrír Framarar, tvær Valskonur og einn leikmaður frá bæði HK og Stjörnunni. Það má sjá úrvalsliðið hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Úrvalslið fyrri hluta Olís deildar kvenna í handbolta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×