Handbolti

Nýtur góðs af brotthvarfi Kasumovic | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur er markahæsti leikmaður KA á tímabilinu.
Dagur er markahæsti leikmaður KA á tímabilinu. vísir/bára

KA hefur unnið báða leiki sína eftir að samningi við bosnísku skyttuna Tarik Kasumovic var rift.

Um síðustu helgi gerði KA góða ferð til Reykjavíkur og vann Fram, 25-27. Í gær unnu KA-menn svo FH-inga, 31-27. Það var fyrsti heimasigur KA á tímabilinu.

Kasumovic er öflug skytta og var næstmarkahæsti leikmaður Olís-deildarinnar á síðasta tímabili.

Hann er hins vegar með eindæmum hornablindur og einn besti ungi hornamaður deildarinnar, Dagur Gautason, fékk boltann ekki tímunum saman þegar Bosníumaðurinn var inni á vellinum. Í sjö leikjum á þessu tímabili átti Kasumovic einungis tvær stoðsendingar á Dag, samkvæmt HBStatz, þrátt fyrir að spila við hlið hans vinstra megin á vellinum.

Kasumovic var aðeins með 0,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Á síðasta tímabili var hann með eina stoðsendingu að meðaltali í leik.

Dagur blómstraði í leiknum gegn FH í gær og skoraði níu mörk úr tólf skotum. Hann hefur ekki skorað meira í leik í vetur. Mörkin hans má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mörk Dags Gautasonar gegn FH

Patrekur Stefánsson var duglegur að finna Dag og átti fimm stoðsendingar á hann. Patrekur kom til KA frá Akureyri fyrir tímabilið og hefur leikið virkilega vel í gula og bláa búningnum. Patrekur er með 4,6 mörk og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.

Dagur er markahæsti leikmaður KA á tímabilinu með 47 mörk, eða 5,2 mörk að meðaltali í leik.

KA er í 7. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Val á Hlíðarenda á miðvikudaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.