Handbolti

„Sannfærður um að þetta sé rétt skref“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla í vetur.
Haukur er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla í vetur. vísir/vilhelm
Kielce í Póllandi verður fyrsti viðkomustaður Selfyssingsins Hauks Þrastarsonar í atvinnumennsku. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Kielce og gengur í raðir liðsins næsta sumar.

„Ég hef skoðað mín mál lengi. Í lok sumars fór ég og kíkti á aðstæður hjá félaginu. Ég talaði við þjálfarana og skoðaði bæinn. Ég er sannfærður um að þetta sé rétt skref,“ sagði Haukur í samtali við Vísi.

Hann verður annar Íslendingurinn sem leikur með Kielce. Sveitungi Hauks, Þórir Ólafsson, var í herbúðum liðsins á árunum 2011-14.

„Ég talaði við Þóri og fékk ráðleggingar hjá honum. Hann þekkir auðvitað vel til þarna,“ sagði Haukur.

Mjög ánægður með niðurstöðuna
Haukur í leik með íslenska landsliðinu á HM í janúar.vísir/getty
Hann hefur verið einn eftirsóttasti ungi leikmaður heims undanfarna mánuði og mörg stórlið renndu hýru auga til hans. Haukur segir að heimsóknin til Kielce í sumar hafi gert útslagið.

„Eftir að ég fór út og skoðaði aðstæður hjá Kielce var það fyrsti kostur. Þeir voru mjög áhugasamir en maður þarf að standa sig,“ sagði Haukur.

„Ég hef tekið mér góðan tíma og farið vel yfir þetta. Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna.“

Kielce er eitt stærsta lið Evrópu og vann Meistaradeild Evrópu fyrir þremur árum.

„Þetta er risastórt félag sem ég er mjög spenntur að spila fyrir. Þetta er krefjandi verkefni,“ sagði Haukur.

Líst vel á Dujshebaev
Haukur varð Íslandsmeistari með Selfossi á síðasta tímabili.vísir/vilhelm
Talant Dujshebaev er þjálfari Kielce og hefur verið frá 2014. Haukur hlakkar til að vinna með honum.

„Hann virkaði mjög vel á mig. Ég átti mjög gott spjall við hann. Þetta er frábær þjálfari og ég efast ekki um að ég geti bætt mig undir hans stjórn. Þetta verður frábær skóli,“ sagði Haukur.

Hann klárar tímabilið með Selfossi áður en hann heldur út. Hann segir að félagaskiptin muni ekki trufla hann það sem eftir er tímabils.

„Alls ekki. Það er gott að þetta sé komið frá og komið út,“ sagði Haukur að lokum.


Tengdar fréttir

Haukur semur við Kielce

Kielce í Póllandi verður næsti áfangastaður á ferli Hauks Þrastarsonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×