Skoðun

Í tilefni af 8. nóvember

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Fátt er börnum og foreldrum þeirra mikilvægara en að börnunum líði vel í skólanum, eigi góða félaga og vini, hafi sjálfstraust og góða sjálfsmynd. „Þú mátt ekki vera með í leiknum“ eða  „ég vil ekki leiða þig“, eru orð lítilla leikskólabarna í íslenskum leikskólum, barna sem eru að fóta sig í flóknum heimi og læra samskipti við jafnaldra sína. Svona samskipti virðast sakleysisleg, en ef þau eru endurtekin gagnvart sama barninu án þess að hinir fullorðnu grípi inn í, geta þau þróast í einelti eða útilokun, sem jafnvel getur varað árum saman. Einelti gegn barni getur hafa þróast í langan tíma áður en það verður augljóst þeim fullorðnu.

Mikilvægt er að takast á við einelti, þegar það kemur upp, en allra mikilvægast er að koma í veg fyrir að jarðvegur skapist fyrir einelti. Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa í nokkur ár boðið leikskólum upp á forvarnarefni gegn einelti sem er mjög árangursríkt og mikil ánægja er með. Efnið nefnist Vinátta, en Fri for mobberi á dönsku, en það á uppruna sinn að rekja til Danmerkur. Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og ákveðinni hugmyndafræði og gildum; umhyggju, umburðarlyndi, virðingu og hugrekki sem eru samofin öllu efninu. Efninu er ætlað að þjálfa félags- og tilfinningaþroska barna og stuðla að góðum skólabrag og samkennd í barnahópnum. Nú eru um 55% leikskóla á Íslandi að vinna með Vináttu fyrir börn frá 0- 6 ára. Efni fyrir grunnskóla er í tilraunavinnu og verður fljótlega í boði fyrir alla grunnskóla. 

Einelti er félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein, en ekki einstaklingsbundinn vandi. Einelti þrífst í umhverfi þar sem lítið umburðarlyndi er fyrir margbreytileikanum, í aðstæðum sem þeir hafa ekkert val um að vera í, þ.e. skóla eða bekkjardeild. Skortur er á samhyggð og góðum félagsanda og því þróast gjarnan samskiptamynstur sem byggist á útilokun.

Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis. Þar er samkennd, börnin njóta virðingar og finna sér sinn eðlilega sess í hópnum, sama hver þau eru, hvernig þau líta út, hvaða hlutverki þau gegna og hvers þau eru megnug. Það er á ábyrgð okkar fullorðna fólksins að búa börnunum slíkt umhverfi.

Í tilefni af Degi gegn einelti, sem haldinn er ár hvert þann 8. nóvember, vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi hvetja foreldra og alla þá sem vinna með börnum að taka höndum saman og koma í veg fyrir einelti í barnahópum. Það er gert með því að kenna börnum að sýna samhyggð, umburðarlyndi og umhyggju. Og ekki síst með því að vera góðar fyrirmyndir barnanna okkar í orði og verki.

Höfundur er verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.