Körfubolti

Kinu: Ég hata ekki Ísland

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kinu Rochford í leik með Þór Þorlákshöfn.
Kinu Rochford í leik með Þór Þorlákshöfn. vísir/vilhelm
Körfuboltakappinn Kinu Rochford hjá Hamri segist alls ekki hata Ísland eins og hann lét í skína á tísti á Twitter fyrr í dag. Hann hefur fjarlægt tístið.

„Ég hata ekki Ísland. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Ég á íslenska kærustu og fólk á Íslandi hefur komið mjög vel fram við mig. Ég var svekktur yfir ákveðnum hlutum tengdum körfubolta er ég skrifaði þetta,“ sagði Kinu í spjalli við Vísi nú síðdegis.

Kinu skrifaði í tístinu umrædda að „honum hefði líkað að vera hér á Íslandi en nú hataði hann það“.  Hann segist ekki hafa meint það svona bókstaflega.

„Ég er vinalegur náungi og kem vel fram við fólk. Ég hef lagt mig fram um að gefa af mér og vinna með krökkum. Það finnst mér rosalega gaman og fátt sem gleður mig meira en að sjá krakkana „hræra í pottunum“ eins og ég geri. Ég hata Ísland alls ekki. Fólk misskilur mig stundum og ég hata það en ég hata ekki Ísland.“

Kinu varð fyrir grófu kynþáttaníði í upphafi leiktíðar er hann lék á Höfn í Hornafirði en hefur reynt að láta það ekki trufla sig of mikið. Honum þykir vænt um Íslendinga og líður almennt vel hér á landi.

„Það gengur vel hjá liðinu og við erum 5-0. Ég hef lagt neikvæða hluti til hliðar og er að einbeita mér að því að hjálpa liðinu að komast upp í Dominos-deildina,“ segir Kinu og bætti við.

„Ef ég hataði Ísland þá hefði ég aldrei komið til baka. Ég var æstur í að koma aftur og vil endilega að fólk viti það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×