Erlent

Breskur barna­níðingur myrtur í fangelsi

Sylvía Hall skrifar
Richard Huckle játaði 71 brot gegn börnum og ungabörnum.
Richard Huckle játaði 71 brot gegn börnum og ungabörnum. Vísir/AFP/Getty
Richard Huckle hlaut 22 lífstíðardóma árið 2016 fyrir kynferðisbrot gegn allt að tvö hundruð malasískum börnum, þá þrítugur að aldri. Hann fannst látinn í fangaklefa sínum í Full Sutton fangelsinu í Bretlandi í gær.

Lögregan rannsakar nú morðið en Huckle var stunginn til bana með heimagerðum hníf. Brot Huckle vöktu heimsathygli á sínum tíma en brot hans spönnuðu allt að átta ár og beindust gegn ungum börnum, í sumum tilfellum ungabörnum. Við dómsuppkvaðningu tók rúma klukkustund að lesa upp alla ákæruliði gegn honum.

Sjá einnig: Einn helsti barnaníðingur Bretlands játaði 71 brot



Huckle ferðaðist fyrst til Malasíu þegar hann tók sér frí frá skóla rétt fyrir tvítugt. Seinna fór hann aftur í sjálfboðaliðastarf og þóttist vera kennari og nýtti sér stöðu sína til þess að kynnast fólki í fátæktarhverfum þar sem hann misnotaði börn.

Hann var handtekinn á Gatwick-flugvelli árið 2014 en á þeim tíma undirbjó hann útgáfu einhvers konar handbók fyrir barnaníðinga sem hann kallaði „Paedophiles and Poverty: Child Lover Guide“ og hafði hann ætlað sér að birta bókina á netinu.

Huckle deildi myndum og myndböndum af brotum sínum með öðrum barnaníðingum á djúpvefjum Internetsins. Þá fann lögreglan rúmlega tuttugu þúsund myndir sem hann tók á tölvu hans, en myndirnar voru af börnum sem hann hafði misnotað.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Sky News um Huckle, en vert er að vara viðkvæma við umfjölluninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×