Handbolti

Fram fyrst­a lið­ið til að leggj­a Stjörn­un­a | Fyrst­i sig­ur Hauk­a kom í Vest­mann­a­eyj­um

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karen var markahæst er Fram lagði Stjörnuna í dag
Karen var markahæst er Fram lagði Stjörnuna í dag Vísir/Vilhelm
Síðari tveimur leikjunum í Olís deild kvenna var að ljúka nú rétt í þessu. Stjarnan tapaði loks leik þegar þær mættu Fram í Safamýri, lokatölur 28-25 heimastúlkum í vil. Þá gerðu Haukar góða ferð til Vestmannaeyja þar sem þær unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu. Þriggja marka sigur staðreynd, 21-18 og stigin Hauka að þessu sinni. 

Fram sigldi fram úr í lokin

Í Safamýrinni byrjuðu gestirnir úr Garðabænum betur og voru með yfirhöndina í upphafi leiks. Um miðbik fyrri hálfleiks snérist leikurinn hins vegar Fram í hag, þær skoruðu þá fimm mörk í röð og Hafdís Renötudóttir múraði fyrir í markinu. Fór staðan úr því að vera 7-6 fyrir  Stjörnunni í 11-7 Fram í vil. 

Stjörnuliðið brást við með því að skipta um markvörð og Hildur Öder Einarsdóttir gaf Hafdísi ekkert eftir hinu megin á vellinum. Þegar flautað var til hálfleiks voru Framstúlkur einu marki yfir, staðan 14-13. 

Upphaf síðari hálfleiks speglaði fyrri hálfleik en Stjarnan komst aftur yfir áður en heimastúlkur tóku völdin og unnu á endanum góðan þriggja marka sigur, 28-25. Fyrsta tap Stjörnunnar á tímabilinu þar með staðreynd. Mest náði Fram fimm marka forystu í síðari hálfleik. 

Markahæst hjá Fram var Karen Knútsdóttir með sjö mörk á meðan Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 10 fyrir Stjörnuna. Þá varði Hafdís 13 skot í marki Fram á meðan Hildur Öder varði 10 í marki Stjörnunnar. 

Sigur Fram þýðir að þær jafna Stjörnuna að stigum en bæði lið eru með átta stig í 2. og 3. sæti Olís deildarinnar. Á toppnum eru svo Valskonur en þær eru enn með fullt hús stiga eftir fimm umferðir.

Þægilegt hjá Haukum gegn ÍBV

Í Eyjum var lítið skorað í fyrri hálfleik en Haukar voru mikið mun sterkari aðilinn. Voru þær sjö mörkum yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja og sigurinn nánast í höfn. Heimastúlkur bitu frá sér í síðari hálfleik en munurinn var of mikill og Haukar unnu á endanum þriggja marka sigur, 21-18. 

Ásta Björt Júlíusdóttir og Ksenija Dzaferovic skoruðu fimm mörk hvor í liði ÍBV, þá varði Marta Wawrzykowska 12 skot í marki Eyjakvenna. Hjá Haukum var Sara Odden markahæst með átta mörk og Saga Sif Gísladóttir varði 10 skot í markinu. 

Var þetta fyrsti sigur Hauka í deildinni en þær eru nú með tvö stig í 7. sæti á meðan ÍBV er í 6. sætinu með þrjú stig.


Tengdar fréttir

HK hafði betur í Mosfellsbæ

Afturelding er enn án stiga í Olísdeild kvenna eftir tap gegn HK á heimavelli sínum í Mosfellsbæ í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×