Skoðun

Skólinn okkar í Staðahverfi

Olga B. Gísladóttir skrifar
Ágætu borgarfulltrúar. 

Enn og aftur standa sparnaðarspjótin upp á skólann okkar Korpu. Enn og aftur þjöppum við íbúar í Staðahverfis okkur saman og berjumst fyrir skólamálum í hverfinu okkar.  Við erum komin í ágætis æfingu í þessu, sem hlýtur nú að teljast sérstakt.  Krafa okkar er einföld.  Við viljum einfaldlega að boðið sé upp á þá þá lögbundnu grunnþjónustu í hverfinu okkar, sem grunnskólinn er.  

Ég telst til frumbyggja í hverfinu, fluttist hingað árið 2000 og á þrjá drengi, fædda 1999, 2003 og 2007.  Þegar elsti sonurinn gekk í Korpuskóla var þveröfugt vandamál í gangi, alltof mörg börn, húsnæðið of lítið og gripið var til þess ráðs að hafa færanlegar kennslustofur skólastofur á skólalóðinni, enda vel yfir 200 börn og kennt í 1-10.bekk.  Eftir að mygla kom upp í skúrunum var ákveðið að færa unglingastigið „tímabundið“ yfir í Vík, en unglingastigið hefur síðan ekki flust aftur yfir í Korpu.

Eins og í öðrum nýjum hverfum koma toppar og lægðir í barneignum þar til hverfi komast í jafnvægi.  Ennþá þekkir maður flestalla sem frumbyggja í hverfinu.  Börnin eru að eldast og fólk fer að hugsa sér til hreyfings, selja stóru húsin og flytjast í minni íbúðir.  Því er mikil skammsýni að leggja niður skólann þegar hann er í lægðinni.  Nýjar fjölskyldur með börn munu flytja í hverfið okkar eins og annars staðar.  Hver á líka að kaupa stóru húsin okkar ef ekki barnafjölskyldur?  Ef skólinn er farinn úr hverfinu er hætt við að við náum ekki að selja húsin okkar og færa okkur í minna og hentugra húsnæði.

Við íbúar erum orðin ágætis félagar og vinir.  Þegar vegið er að samfélagi okkar og barnanna okkar þá þjöppum við okkur saman, boðum til funda, förum í bardagaklæðin,  við gefumst ekki upp.  Við erum orðin mjög langþreytt, ég viðurkenni það, en við munum berjast eins og þarf fyrir hjartanu í hverfinu okkar, skóla fyrir börnin okkar.  Því þannig viljum við hafa hverfið okkar, líf og fjör, börn að leik, ekki  taka þetta af okkur.  Þið munið heyra í okkur áfram.  Við munum mótmæla, aftur og aftur, eða eins og þarf, þar til þið hættið að skipta ykkur af skólanum í hverfinu okkar.

Ég bið ykkur að taka góða ákvörðun og leyfa okkur að hafa skólann okkar áfram.  Við erum tilbúin til að vinna með ykkur að góðum lausnum fyrir hverfið.

Með vinsemd og virðingu,

Olga B. Gísladóttir

Íbúi í Staðahverfi, Grafarvogi




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×