Innlent

Raf­ræn öku­skír­teini: Já­kvæð fyrir öllu sem auð­veldar stjórn­sýsluna

Birgir Olgeirsson skrifar
Jónas Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Jónas Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Norðmenn eru fyrsta ríki Evrópu til að bjóða upp á rafræn ökuskírteini í síma. 670 þúsund Norðmenn sóttu sér ökuskírteini í síma á fyrsta deginum en hér á Íslandi fylgjast stjórnvöld með.

Það er hvimleitt að vera ekki með ökuskírteini á sér þegar lögregla stöðvar mann við hefðbundið eftirlit, en sekt við slíku nemur 10 þúsund krónum.

Í Noregi þurfa ökumenn ekki að hafa áhyggjur af slíku því þeir geta nú sýnt lögreglu ökuskírteinið sitt í símanum. Til að fá ökuskírteini í símann í Noregi þarf að hala niður appi og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Um leið birtast allar upplýsingar um þau ökuréttindi sem viðkomandi hefur. Norðmenn geta þó bara framvísað ökuskírteini í gegnum símann í Noregi.

Ekki er hægt að nota forritið sem ökuskírteini á ferðum erlendis og ráðlagt að hafa gamla ökuskírteinið með í för. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna hafa slík öpp verið í notkun í einhvern tíma.

Jákvætt fyrir öllu sem auðveldar stjórnsýslu

Jónas Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, segir ekki hafa verið tekna ákvörðun um að gefa út rafræn ökuskírteini hér á landi.

„En ráðuneytið er mjög jákvætt fyrir öllu sem auðveldar stjórnsýsluna og rafrænum og stafrænum lausnum í stjórnsýslunni. Við höfum kannski frekar verið að fylgjast með núna, því sem hefur verið að gerast í Noregi.“

Reglur á Íslandi eru byggðar á Evrópureglugerð þar sem kveðið er á um ökuskírteini í plastformi. Hins vegar þróar ráðuneytið nú stafræna umsókn um ökuskírteini.

„Þá þarf fólk að skila inn umsóknum á pappír og það þarf að festa við ljósmynd á ljósmyndapappír við umsóknina. Verið er að kanna hvort að einfalda megi þetta ferli og gera það stafrænt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×