Skoðun

Allir vinna!

Sandra B. Franks skrifar
Sjúkraliðar eru ómissandi hlekkur í keðju heilbrigðiskerfisins. Starfið er mjög gefandi og fjölbreytt en reynir líka á og getur verið virkilega krefjandi. Starfsaðstæður eru oft á tíðum erfiðar og getur álagið því orðið meira en gott þykir. Þá eru dæmi um að mjög víða, til dæmis á hjúkrunarheimilum og í heimahjúkrun, stendur sjúkraliðum ekki til boða að vinna meira en 80% hlutastarf einmitt vegna þess að vinnuveitendur telja að 100% starf í vaktavinnu vera of íþyngjandi. Það er ekki síst vegna þessara þátta sem við stöndum frammi fyrir skorti á sjúkraliðum og að nýliðun inn í fagið gengur of hægt. Skorturinn veldur auknu álagi á þá sem starfa í faginu, kulnun hefur farið vaxandi og eru mörg dæmi þess að sjúkraliðar hafi hrakist úr starfi vegna hennar. Þessi staða hefur legið lengi fyrir og kemur engum sem til þekkir á óvart.

Í kjaraviðræðum Sjúkraliðafélags Íslands, sem samninganefnd BSRB leiðir, er stytting vinnuvikunnar ein meginkrafan, enda eru afleiðingar af miklu vinnuálagi vel þekktar og geta verið óafturkræfar. Stytting vinnuvikunnar hefur um árabil verið eitt mikilvægasta baráttumál sjúkraliða og allflestir sem hafa kynnt sér málið átta sig á mikilvægi hennar. Meginmarkmið með að stytta vinnutíma fyrir sjúkraliða snýr að bættum starfsskilyrðum, þannig að þeim sé gert kleift að vinna 100% starf án þess að gjalda fyrir það með minnkandi starfsþreki og heilsufari sínu.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir víða um land, hafa stytt vinnuvikuna eða eru að gera tilraunir með styttri vinnuviku með mjög góðum árangri. Flest bendir til þess að áhrifin séu afar jákvæð og hafa mælingar sýnt fram á marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju, minni veikindi og aukna framlegð. Fyrir launagreiðendur þýðir því stytting vinnuvikunnar ánægðara starfsfólk, meiri framleiðni, aukna hollustu í starfi og minni starfsmannavelta. Ávinningurinn af styttri vinnuviku er því einfaldlega sá að allir vinna. Eftir hverju erum við eiginlega að bíða?

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.