Skoðun

Stjórnmál fyrir lengra komna

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Á Íslandi er þetta auðvelt. Menn og konur semja hægri-vinstri og mynda stjórn. Farið er í sjóferð út í Viðey og svo landað stjórnarsamstarfi, eða Þingvallaferð og svo allt innsiglað með kossi eða wild boys partí í sumarbústað og svo game on.

Hér á Spáni er þetta flóknara. Formenn tveggja vinstriflokka, sósalistinn Pedro Sanchez og Pablo Iglesías formaður Við getum, hafa frá því snemmsumars verið að máta málefnin sem fram að því voru jafn lík og lauf á sama tré. Þeir höfðu meira að segja skrifað undir plagg til að bindast tryggðarböndum þegar engin þörf var á. Hins vegar, nú þegar mikið liggur við, ná þeir engan veginn saman. Sósíalistinn sagðist meira að segja ekki geta sofið ef hann vissi af fyrrverandi vinum sínum á ráðherrastólum. Því eru öll sund lokuð og Spánverjar standa frammi fyrir kosningum sem eru að festast í sessi sem árlegur viðburður.

Annar eins viðsnúningur hefur ekki sést hér syðra en ég kannast við hann af skemmtanalífinu í Reykjavík. Þar sá ég eitt sinn góðan vin minn á skemmtistað og var hann með föngulega konu í fanginu og fannst mér þá sem það hlyti að vera gaman að vera hann. Þegar út var komið kveikti hann sér í sígarettu en það hugnaðist frúnni ekki. Spurði hún mig þá hvort ég reykti. Svaraði ég neitandi og féll hún þá þegar heitfeng í fang mitt. Ég fór reyndar einn heim það kvöld en ég hef aldrei átt í neinum vanda með að skilja spænsk stjórnmál síðan þá.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×