Handbolti

Valskonur mæta íslenskri landsliðskonu í Evrópukeppninni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eva Björk Davíðsdóttir hefur átt sæti í íslenska landsliðinu undanfarin ár.
Eva Björk Davíðsdóttir hefur átt sæti í íslenska landsliðinu undanfarin ár. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðskonan Eva Björk Davíðsdóttir er mætt til Íslands með liðsfélögum sínum í sænska liðinu Skuru en báðir leikirnir á móti Íslandsmeisturum Vals í fyrstu umferð EHF-bikarsins fara fram á Hlíðarenda um helgina.

„Það verður gaman að koma til Íslands og spila við Val,“ sagði Evar Björk í viðtali við heimasíðu Skuru.

„Ég þekki flesta leikmennina mjög vel, bæði úr landsliðinu og frá því að ég spilaði með Gróttu. Valur er flottur klúbbur með frábæra hefð og á síðasta tímabili unnu þær alla titlana,“ sagði Eva Björk.

„Ef við spilum góða vörn og stjórnum hraðanum þá eigum við góða möguleika í þessum tveimur leikjum á Íslandi. Það er lykilatriði að við mætum til Íslands með hundrað prósent einbeitingu og fulla orku. Valur er lið sem gefur allt sitt í leikina og er við gefum þeim litla putta þá taka þær alla hendina,“ sagði Eva Björk.

Liðið sem hefur betur í leikjunum mætir rússneska liðinu Zvezda Zvenigorod í næstu umferð. Leikirnir fara báðir fram í Valsheimilinu á Hlíðarenda, sá fyrri í kvöld klukkan 19.30 og sá seinni á sunnudagskvöldið á sama tíma.

„Þetta er ótrúleg mikilvægt fyrir þróun okkar liðs og fyrir okkar leikmenn að ná sér í alþjóðlega reynslu. Svona Evrópuleikir eru allt öðruvísi en leikirnir heima í deildinni. Við erum ekki að gera okkur auðveldara fyrir með því að spila báða leikina á útivelli en það var heldur ekki markmiðið,“ sagði Mats Kardell, þjálfari Skuru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×