Skoðun

Máttur lyginnar

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Ísland dróst óvænt inn í Brexit hringavitleysuna í vikunni. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, gerir sér nú dælt við Donald Trump í von um fríverslunarsamning við Bandaríkin þegar Bretar segja skilið við Evrópusambandið. Boris tjáði Trump að mikilvægt væri að matvælaeftirlit Bandaríkjanna stæði ekki í vegi fyrir viðskiptum landanna með óþarfa skriffinnsku. Nefndi hann sem dæmi grísabökuna Melton Mowbray sem flutt væri greiðlega alla leiðina til Íslands og Taílands en vegna takmarkana matvælaeftirlitsins fengist hún ekki í Bandaríkjunum.

Ekki leið á löngu uns í ljós kom að Boris fór með fleipur. Framleiðendur bökunnar könnuðust hvorki við að hafa selt hana til Íslands né til Taílands. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Boris Johnson hagræðir sannleikanum og hunsar staðreyndir til hagsbóta pólitískum áróðri sínum.

Þungamiðja kosningabaráttu Borisar um embætti forsætisráðherra sem fram fór í sumar var andúð hans á Evrópusambandinu. Á síðasta framboðsfundi baráttunnar stóð Boris keikur á sviði ExCel ráðstefnusalarins í London og veifaði vakúmpakkaðri síld, saltaðri og reyktri. „Áratugum saman hefur reykta síldin okkar verið send svona í pósti,“ sagði hann um pakkann sem að sögn barst honum frá bálreiðum breskum fisksala. „En nú hefur flutningskostnaðurinn margfaldast eftir að skriffinnar í Brussel kröfðust þess að hvert flak hvíldi á kodda úr plasti fylltum ís. Þessi heilbrigðisreglugerð er tilgangslaus, kostnaðarsöm og óumhverfisvæn.“

Þrumuræða Borisar uppskar ákaft lófatak og húrrahróp. Sagan var góð. Hún sýndi skýrt og skorinort fram á íþyngjandi tilgangsleysi Evrópusambandsins. Það var aðeins einn hængur á. Sagan var ekki sönn. Ekki ein einasta reglugerð Evrópusambandsins skikkaði aðildarríkin til að flytja þurrkaða síld á ískoddum. Reglugerðin reyndist þvert á móti heimasmíðuð. Það voru Bretar sjálfir sem gerðu kröfuna um koddana.

Falskar minningar

Við lifum á öld lyginnar. Falsfréttir hafa áhrif á heimsmynd fólks og kosningahegðun. Rannsókn sem birt var í nýjasta hefti tímaritsins Psychological Science staðfestir mátt lyginnar.

Í rannsókninni sem gerð var við Háskólann í Cork á Írlandi voru rúmlega þrjú þúsund þátttakendum sýndar fréttir. Sumar voru sannar, aðrar voru uppspuni þeirra sem stýrðu rannsókninni. Í ljós kom að ef falsfrétt samræmist stjórnmálaskoðun fólks er það líklegra til að trúa fréttinni, muna eftir henni og neita að láta af trúnaði á hana jafnvel þótt því sé sagt að hún sé ósönn. En ekki nóg með það.

Rannsóknin leiddi Í ljós að falsfréttir geta einnig framkallað falskar minningar. Helmingur þátttakenda í rannsókninni sagðist muna eftir að hafa lesið upplognu fréttirnar. Margir þrættu meira að segja fyrir að um tilbúning væri að ræða eftir að þeim var sagt að fréttirnar hefðu verið helber skáldskapur, saminn fyrir rannsóknina.

Dulkóðuð lygi

Í breskri ensku er til slangur sem kallast „Cockney rím“. Á það upptök sín í austurhluta Lundúna en talið er að það hafi orðið til í kringum 1840. Slangrið er eins konar dulmál. Eitt orð er leyst af hólmi með tveimur orðum sem ríma við það sem þau komu í staðinn fyrir. „Money“ er „bees and honey“; „wife“ er „trouble and strife” – og svo framvegis. Talið er að slangrið hafi orðið til meðal kaupmanna á útimörkuðum Austur-Lundúna sem töluðu dulmál sín á milli er þeir stunduðu verðsamráð frammi fyrir viðskiptavinum. Aðrir segja að glæpamenn hafi fundið upp slangrið til að snúa á lögregluna.

Enska orðið yfir lygar er „lies“. Til er „Cockney“ slangur yfir „lies“: „Porkie pies“ – eða eins og það útleggst á íslensku: Grísabökur.

Rétt eins og margir stjórnmálamenn samtímans notar Boris Johnson lygar sér til framdráttar. Því rannsóknir sýna að „porkie pies“ svínvirka.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.