Handbolti

Kiel lenti í smá vandræðum en komst í undanúrslitin á Super Globe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Bilyk lék vel í dag.
Nikola Bilyk lék vel í dag. Getty/Martin Rose
Þýsku bikarmeistararnir í Kiel eru komnir áfram í undanúrslit á heimsmeistarakeppni félagsliða, IHF Super Globe, eftir fjögurra marka sigur á egypska félaginu Zamalek SC, 32-28.

Kiel missti forskotið niður í eitt mark um miðjan seinni hálfleik en tókst að landa sigri með ágætum endaspretti.

Íslenski leikstjórnandinn Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk ekkert að spila með Kiel í þessum leik og sat því á bekknum allan tímann. Gísli var einn af þremur leikmönnum Kiel á skýrslu sem fengu ekki að koma við sögu en hinir voru þeir Ole Rahmel og Pavel Horák.

Nikola Bilyk og Niclas Ekberg voru markahæstir hjá Kiel með níu mörk hvor en Ekberg skoraði fjögur af mörkum sínum af vítalínunni.

Austurríkismaðurinn Nikola Bilyk var líka með fimm stoðsendingar og kom því að fjórtán mörkum Kiel í leiknum.

Niklas Landin Jacobsen varði þrettán skot þar af tvö vítaköst.

Kiel komst í 6-3 og 13-7 í fyrri hálfleiknum og var 18-12 yfir í hálfleik.

Egyptarnir unnu fyrstu sex mínútur seinni hálfleiksins 5-1 og komu muninum niður í eitt mark, 19-20, 20-21 og 21-22, þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Leikmenn Kiel gáfu þá aftur í og lönduðu nokkuð öruggum sigri.

Kiel mætir væntanlega Evrópumeisturum RK Vardar í undanúrslitunum á morgun en RK Vardar spilar við Al Mudhar frá Sádí Arabíu í sínum leik í átta liða úrslitunum seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×