Skoðun

Hinsegin dagar á Eyrinni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hvað verður um aurinn þinn? Verður megnið eftir í bankanum til að borga af lánum á ríflegum vöxtum? Ertu í þeim sívaxandi hópi sem greiðir leigufélögum fyrir skjólið? Svo er það Costco, fer mikið þangað? Og þá fá símafyrirtækin náttúrlega sinn skerf útaf gemsanum og öllu tæknigumsinu. Er eitthvað eftir til að panta eitthvað á Amazon? Fyrirtækið sem er síður en svo þekkt fyrir rausnarskap þegar kemur að starfsmannahaldi. Hversu mikið fer til einhvers sem finnur fyrir því að þú hefur komið við og keypt eitthvað?

Líklegast ekki mikið. Kostnaðarliðir okkar leggjast sífellt í færri og stærri vasa. Þegar hagræðingin nær hámarki fer þetta líklegast allt í annan hvorn rassvasann á sömu brókinni.

Þessi þróun setur einnig mark sitt á spænskar borgir og bæi. Í mörgum miðbænum eru tómar verslanir og ófáir uppgjafakaupmenn með rýmingarútsölu. Á sama tíma rísa risavaxnir stórmarkaðir í úthverfum bæjanna og í borgunum stærðarinnar verslunarkjarnar með gríðarlegt úrval af bragðlausum matvælum og glansfatnaði framleiddum í þrælaverksmiðjum í Asíulöndum. Innvolsið í þessum risahöllum er ávallt hið sama, hvort sem þú ert í Madríd eða Murcia, alls staðar eru það sömu verslunarkeðjurnar sem seðja græðgi gestanna. Sömu veitingahúsakeðjur sjá um sullið ofan í fólkið meðan illa launað starfsfólk reynir að komast í gegnum daginn og yfir öllu glymur kauphvetjandi hávaði kenndur við tónlist.

Er ekki ráð að fara að halda hinsegin daga á Eyrinni áður en þetta fer að snúast uppí eitthvað sem minnir á danska einokunardaga?




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×