Handbolti

Sex marka tap gegn Frökkum og strákarnir spila um 7. sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir Ríkharðsson ræðir við sína menn.
Heimir Ríkharðsson ræðir við sína menn. MYND/INSTAGRAM/HSI
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði í dag gegn Frökkum með sex mörkum, 30-24, í umspili um sæti fimm til átta á HM í Makedóníu.

Frakkarnir tóku völdin strax frá fyrstu mínútu og voru sterkari en strákarnir okkar. Þeir leiddu 7-4 eftir stundarfjórðung og voru svo sex mörkum yfir í hálfleik, 16-10.

Eftir það var á rammann reip að draga en leikurinn varð aldrei spennandi í síðari hálfleik. Strákarnir náðu mest að minnka muninn í þrjú mörk en lokatölur 30-24.

Dagur Gautason fór á kostum í íslenska liðinu. KA-maðurinn var langmarkahæstur en hann gerði átta mörk úr tíu skotum. FH-ingurinn Einar Örn Sindrason og HK-ingurinn Eiríkur Guðni Þórarinsson komu næstir með þrjú mörk.

Íslenska liðið leikur því um sjöunda til áttunda sætið á morgun en mótherjinn þar verður annað hvort Ungverjaland eða Spánn. Þau mætast síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×