Körfubolti

Álftnesingar safna stórskotaliði í körfuboltanum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Kári kominn í blátt
Vilhjálmur Kári kominn í blátt Körfuknattleiksdeild Álftaness
Álftanes verður með lið í næstefstu deild karla í körfubolta á komandi leiktíð og virðast ætla sér stóra hluti ef mið er tekið af liðsstyrknum sem borist hefur Álftnesingum að undanförnu.

Vilhjálmur Kári Jensson er nýjasti liðsmaður Álftaness en hann var hluti af Íslandsmeistaraliði KR á síðustu leiktíð. Þessi 22 ára 196 sentimetra framherji hefur leikið hjá uppeldisfélagi sínu allan sinn feril auk þess að eiga leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Vilhjálmur Kári fetar þar með í fótspor Birgis Björns Péturssonar og Þorsteins Finnbogasonar sem gengu í raðir Álftnesinga á dögunum en allir þessir leikmenn hafa töluverða reynslu úr efstu deild hér á landi.

Fleiri reynslumiklir leikmenn eru í leikmannahópi Álftnesinga. Til að mynda fjölmiðlamaðurinn Kjartan Atli Kjartansson, stjórnandi Körfuboltakvölds og fyrrum leikmaður Stjörnunnar en hann var í lykilhlutverki hjá liðinu í 2.deildinni á síðustu leiktíð.

Þá hyggst Justin Shouse taka skóna af hillunni og leika með Álftanesi á komandi leiktíð. Þjálfari þeirra er Hrafn Kristjánsson, fyrrum þjálfari KR, Stjörnunnar og Þórs á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×