Golf

Segir árið í ár það besta á ferlinum og að Íslandsmótið sé bara bónus

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur átt góðu gengi að fagna það sem af er ári en rætt var við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Guðmundur segir að árið sé hans besta hingað til en hann tryggði sér á dögunum þáttökurétt á Áskorenda mótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröð í Evrópu.

„Þetta er klárlega mitt besta ár og vinna sem ég fór í fyrir þremur og hálfu ári síðan er að skila sér mjög vel núna. Ég er mjög ánægður,“ sagði Guðmundur er hann ræddi við Júlíönu Þóru.

Guðmundur stóð uppi sem sigurvegari í Einvíginu á Nesinu um helgina en þar keppa sterkustu kylfingar Íslands í árlegu góðgerðamóti. Í vikunni hefst svo Íslandsmótið.

„Haraldur er að spila frábærlega, Axel vill verja titilinn og þetta verður sterk keppni. Ég hlakka til,“ en er markmiðið að vinna Íslandsmótið?

„Aðalmarkmiðið hefur verið að komast inn á Áskorendamótaröðina en það væri bónus að vinna þetta líka,“ sagði Guðmundur að lokum.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×