Handbolti

Króatar kjöldrógu Íslendinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Freyr skoraði fimm mörk gegn Króatíu og var markahæstur í íslenska liðinu.
Orri Freyr skoraði fimm mörk gegn Króatíu og var markahæstur í íslenska liðinu. mynd/hsí
Ísland steinlá fyrir Króatíu, 29-16, í 16-liða úrslitum á HM U-21 árs karla í handbolta í dag.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn ójafn og sigur Króata aldrei í hættu.

Ísland skoraði þrjú mörk í röð um miðjan fyrri hálfleik og minnkaði muninn í eitt mark, 7-6. Króatía svaraði með sex mörkum í röð og náði aftur heljartaki á leiknum. Staðan í hálfleik var 13-7, Króötum í vil.

Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum. Á endanum munaði 13 mörkum á liðunum, 29-16. Þriðja stórtap Íslands á HM því staðreynd.

Sóknarleikur íslenska liðsins var afleitur í dag og skotnýtingin aðeins 43%.

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur Íslendinga með fimm mörk. Gabríel Martinez Róbertsson og Kristófer Andri Daðason skoruðu þrjú mörk hvor.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði fimm skot í markinu og Andri Sigmarsson Scheving þrjú.

Ísland leikur um sæti 9.-16. sæti á morgun. Ekki liggur enn fyrir hver andstæðingur Íslendinga verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×