Körfubolti

Eigandi Los Angeles Clippers er vægast sagt mjög spenntur fyrir tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framtíðarforysta Los Angeles Clippers. Talið frá vinstri: Lawrence Frank, þjálfarinn Doc Rivers, Paul George, Kawhi Leonard og eignandinn Steve Ballmer.
Framtíðarforysta Los Angeles Clippers. Talið frá vinstri: Lawrence Frank, þjálfarinn Doc Rivers, Paul George, Kawhi Leonard og eignandinn Steve Ballmer. Getty/Kevork Djansezian
Steve Ballmer er einn skemmtilegast eigandinn í NBA-deildinni í körfubolta og karlinn hefur líka fulla ástæðu þessa dagana til að vera hress og kátur.

Lið hans Los Angeles Clippers var sigurvegarinn á leikmannamarkaði NBA-deildarinnar í sumar þegar það sannfærði Kawhi Leonard um að semja við félagið og fékk síðan að auki Paul George í skiptum frá Oklahoma City Thunder.

Í gær kynnti Los Angeles Clippers þessa tvo frábæru leikmenn sína og það er óhætt að segja að Steve Ballmer hafi átt erfitt með að halda aftur af sér fyrir spenningi.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig Steve Ballmer byrjaði þennan sögulega kynningarfund.





Los Angeles Clippers liðið þykir sigurstranglegasta lið deildarinnar en liðið hefur aldrei unnið NBA-titilinn og ekki einu sinni komist í lokaúrslitin.

Clippers liðið tapaði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð og vann síðast einvígi í úrslitakeppninni árið 2015. Þá komst liðið í undanúrslit í Vesturdeildarinnar sem var jöfnun á besta árangri félagsins frá upphafi.





Steve Ballmer er 63 ára gamall og er metinn á yfir 42 milljarða Bandaríkjadala. Í október 2018 var hann talinn vera átjándi ríkasti maður heims.

Hann eignaðist Los Angeles Clippers liðið árið 2014 en það kostaði hann tvo milljarða Bandaríkjadala eða 245 milljarða íslenskra króna.

Steve Ballmer er mjög sýnilegur á leikjum liðsins og tekur virkan þátt í þeim á hliðarlínunni. Hann er vinsæll eignandi og það eru margir sem fagna því að hann eigi nú loksins lið sem getur farið alla leið og unnið langþráðan NBA-titil.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×