Körfubolti

Sleppir HM til að undirbúa sig betur fyrir Lakers

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Davis var kynntur til leiks hjá Lakers um helgina
Davis var kynntur til leiks hjá Lakers um helgina vísir/getty
Nýjasti liðsmaður Los Angeles Lakers, kraftframherjinn öflugi, Anthony Davis hyggst ekki gefa kost á sér í bandaríska landsliðið fyrir HM í körfubolta sem fram fer í Kína dagana 31.ágúst-15.september næstkomandi.

Davis var valinn í 20 manna æfingahóp Bandaríkjanna og er þeim hópi ætlað að koma saman til æfinga þann 5.ágúst. 

Samkvæmt heimildum Chris Haynes mun Davis hins vegar hafa tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér í verkefnið þar sem hann vill frekar verja tíma sínum í undirbúningi með sínu nýja liði en Lakers ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð þar sem Davis verður í aðalhlutverki ásamt einum besta körfuboltamanni sögunnar, Lebron James.

Margar af skærustu stjörnum NBA deildarinnar gefa ekki kost á sér í HM hópinn. Til að mynda eru Lebron James, Kevin Durant, Steph Curry og fleiri góðir ekki í æfingahópnum.

Það er þó ekki svo að Bandaríkin leggi ekki mikla áherslu á að landsliðið geri vel eins og má sjá á vel skipuðu þjálfarateymi landsliðsins en Gregg Popovich verður aðalþjálfari liðsins og hefur þá Steve Kerr, Lloyd Pierce og Jay Wright sér til aðstoðar á HM í Kína.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×