Skoðun

Hvert er okkar hlutverk?

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
Eitt af hlutverkum okkar hjá Landsneti er að upplýsa viðskiptavini, stjórnvöld og almenning um stöðuna á raforkumarkaðnum hverju sinni. Við hjá Landsneti leggjum mikla áherslu á frumkvæði í upplýsingagjöf og að allir séu vel upplýstir um starfsemi okkar sem og markaðarins í heild. Fyrir okkur skiptir máli að upplýsingagjöfin sé heiðarlega og hreinskilin og til þess fallin að auka traust allra sem eiga í samskiptum við okkur.

Upplýsingar sem varða almannahag

Skýrslan um afl- og orkujöfnuð sem kom út á dögunum er hluti af upplýsingagjöf okkar þar sem við leggjum fram staðreyndir inn í umræðuna. Við höfum í yfir áratug árlega gefið út skýrslu um afl- og orkujöfnuð á landinu, skýrslu þar sem líkur á aflskorti eru metnar.

Í nýju skýrslunni bendum við á þá staðreynd að raforkunotkun eykst hraðar en uppbygging virkjana sem leiðir til þess að líkur á orkuskorti fari vaxandi. Með því erum við ekki að taka afstöðu til einstakra notenda. Það er ekki okkar hlutverk að hafa skoðun á einstaka viðskiptavinum, notkun eða virkjunum heldur að tryggja örugga afhendingu á orku.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að ákvarðanir í orkumálum og uppbyggingu orkumannvirkja hafa áhrif til langs tíma. Ákvörðun í dag í þessum efnum er iðulega viðbragð við stöðu sem kann að koma upp eftir einhver ár. Þessar ákvarðanir þarf að taka með upplýstum hætti og það er það sem við erum að benda á með skýrslunni.

Ný orkustefna

Hlutverk Landsnets er að stuðla að því að allir, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, hafi á hverjum tíma aðgang að rafmagni í því magni og þeim gæðum sem þörf er á. Ef útreikningar sýna að líkur eru á  aflskorti verður Landsnet að upplýsa um það. Með hvaða hætti er brugðist við er svo önnur umræða. Fjölmargar leiðir eru mögulegar t.d. með því að nýta núverandi orkumannvirki betur, auka framleiðslu, spara orku eða forgangsraða í kerfinu. Hvaða leið verður farin er ákvörðun annara en Landsnets. Ný orkustefna sem nú er unnið að mun vonandi varða leiðina.Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsnets.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.