Formúla 1

Verstappen fyrstur í Austurríki en gæti fengið refsingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Max Verstappen fékk frábæran stuðning í brautinni í Austurríki
Max Verstappen fékk frábæran stuðning í brautinni í Austurríki vísir/getty
Max Verstappen fagnaði sigri í austurríska kappakstrinum í Formúlu 1 í dag. Verstappen átti frábæran dag og vann annað árið í röð á heimavelli Red Bull.

Verstappen var annar á ráspól á eftir Ferrarimanninum Charles Leclerc. Hollendingurinn byrjaði hrikalega og datt niður í sjöunda sæti strax eftir fyrstu beygjurnar.

Hann lét það hins vegar ekki á sig fá og vann sig hægt og rólega upp töfluna. Leclerc var í forystu í lokasprettinum á meðan Verstappen var á svakalegum hraða og var hraðastur í brautinni hring eftir hring.

Red Bull maðurinn setti pressu á Leclerc og náði svo að fara fram úr honum þegar tveir hringir voru eftir. Leclerc náði ekki að svara og Verstappen vann sinn sjötta kappakstur á ferlinum.





Valtteri Bottas á Mercedes varð þriðji en liðsfélagi hans Lewis Hamilton, sem hefur unnið hvern kappaksturinn á fætur öðrum á tímabilinu, varð að sætta sig við fimmta sætið.

Sebastian Vettel á Ferrari varð fjórði.

Atvikið þegar Verstappen fór fram úr Leclerc er í skoðun þar sem Verstappen gæti hafa gerst brotlegur og ýtt Leclerc út af brautinni.

Hann er þó sigurvegari kappakstursins þar til annað kemur í ljós. Heyrði hollenska þjóðsönginn, fékk sinn verðlaunagrip og fagnaði fyrsta sigri sínum þetta tímabilið.



 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×