Skoðun

Hvert er fyrsta skrefið í átt að sjálfbæru háskólasamfélagi?

Eyrún Baldursdóttir skrifar
Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum ef árangur í loftslagsmálum á að nást. Í því felst meðal annars að breyta lifnaðarháttum okkar í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni lífstíl sem gengur ekki um of á auðlindir og lífríki jarðar. Háskólasamfélagið er ekki undanskilið þeirri ábyrgð sem hvílir á stjórnvöldum, fyrirtækjum sem og einstaklingum í þessari baráttu við loftslagsbreytingar. Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Félagsstofnun stúdenta ásamt öllum þeim aðilum sem koma að mótun háskólasvæðisins ber að hafa umhverfisvernd og sjálfbærni að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku um framtíð háskólasvæðisins.

Vilji Röskvuliða er skýr. Við viljum umhverfisvæna og sjálfbæra stúdentagarða þar sem hægt er flokka lífrænan úrgang. Við viljum öflugar almenningssamgöngur. Við viljum háskólasvæði þar sem eru upplýstir göngu- og hjólastígar milli bygginga. Öll uppbygging á háskólasvæðinu á að miða að sjálfbæru samfélagi þar sem stúdentar geta lifað bíllausum lífstíl og sótt grunnþjónustu í sínu nærumhverfi. Einn mikilvægasti þáttur þess er að matvöruverslun opni á svæðinu, en næstu lágvöruverslanir er að finna í 2,5- 4 km fjarlægð frá stúdentagörðum. Það þýðir að stúdentar þurfa að ganga í u.þ.b. 40 mínútur ætli þeir sér ekki að nota einkabíl eða strætó, nú eða versla við einu búðina á háskólasvæðinu, Háskólabúðina, sem rekin er af 10-11 og mun seint teljast hagkvæm fyrir veski stúdenta og býður ekki uppá fullnægjandi matvöruúrval.

Matvöruverslun á háskólasvæðinu myndi auðvelda stúdentum og starfsfólki háskólans að sporna gegn loftslagsbreytingum og styðja við bíllausan lífstíl stúdenta og sjálfbært háskólasamfélag, auk þess að rekstur einkabíls er gríðarlega kostnaðarsamur og ekki á færi allra stúdenta. Svo má ekki gleyma því að lágvöruverslun á svæðinu myndi þjónusta fleiri en stúdenta, og nágrannar háskólasvæðisins í Vesturbænum og Skerjafirði myndu njóta góðs af. Ég skora því á eigendur lágvöruverslanakeðja að láta til skarar skríða og svara kalli stúdenta um almennilega matvöruverslun á háskólasvæðið. Húsnæði er í boði, t.d. í nýju húsnæði Grósku sem rís á Vísindagörðunum.

Svona uppbygging er hluti af stefnu stúdentahreyfingarinnar Röskvu um framtíð háskólasvæðisins og átti fylkingin meðal annars fund með framkvæmdastjóra Vísindagarða í upphafi árs um málið og fékk mjög jákvæð viðbrögð. Á sama fundi var einnig rætt um fleiri atriði sem er að finna í stefnu Röskvu um framtíð háskólasvæðisins, til dæmis að fá heilsugæslu fyrir stúdenta á háskólasvæðið og líkamsræktarstöð með aðgengi. Í greinagerð með samþykktu deiliskipulagi frá 12.maí 2016 liggur fyrir heimild til þess að starfrækja matvöruverslun á svæði Vísindagarða. Fulltrúar Vísindagarða eru jákvæðir og gera ráð fyrir þjónustunni í sínu deiliskipulagi. Eina sem vantar er vilji búðareiganda til að koma til móts við þarfir stúdenta.

Höfundur er oddviti Röskvu í Stúdentaráði




Skoðun

Sjá meira


×