Körfubolti

Leonard í hóp með Abdul-Jabbar og James

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leonard með verðlaunin sem hann fékk fyrir að vera besti leikmaður úrslitaeinvígisins.
Leonard með verðlaunin sem hann fékk fyrir að vera besti leikmaður úrslitaeinvígisins. vísir/getty
Kawhi Leonard, leikmaður nýkrýndra NBA-meistara Toronto Raptors, var valinn besti leikmaður (MVP) úrslitaeinvígisins sem lauk í gær. Toronto vann þá Golden State Warriors, 110-114, á útivelli og tryggði sér titilinn.

Þetta er í annað sinn sem Leonard fær þessa viðurkenningu en hann var valinn besti leikmaður úrslitanna þegar San Antonio Spurs varð meistari 2014.

Leonard komst þar með í ansi góðan hóp með Kareem Abdul-Jabbar og LeBron James. Þeir eru þeir einu í sögu NBA sem hafa verið valdir bestu leikmenn úrslita með tveimur liðum.

Abdul-Jabbar, sem gekk þá enn undir nafninu Lew Alcindor, var valinn bestur í úrslitunum þegar Milwaukee Bucks varð meistari 1971. Hann endurtók leikinn með Los Angeles Lakers 1985.

James var valinn bestur í úrslitunum þegar Miami Heat varð meistari 2012 og 2013. Hann var svo valinn bestur í úrslitunum þegar Cleveland Cavaliers varð meistari í fyrsta og eina sinn 2016.

James er einn fjögurra leikmanna sem hafa þrisvar sinnum verið valdir bestir í úrslitum NBA. Hinir eru Magic Johnson, Shaquille O'Neal og Tim Duncan. Michael Jordan á metið en hann var sex sinnum valinn besti leikmaður úrslitanna.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×