Tónlist

Leiðin til að hlúa að sjálfri sér

Benedikt Bóas skrifar
Lagið Playground með Karlottu Skagfield hefur vakið athygli á Spotify en lagið er það fyrsta sem hún gefur út. Hún hefur alltaf verið syngjandi og kemur af miklu tónlistarfólki.
Lagið Playground með Karlottu Skagfield hefur vakið athygli á Spotify en lagið er það fyrsta sem hún gefur út. Hún hefur alltaf verið syngjandi og kemur af miklu tónlistarfólki.

Frá því að ég man eftir mér hefur mig alltaf langað til að verða tónlistarkona og lagahöfundur. Það var ávallt mikil tónlist í fjölskyldunni, bæði amma, mamma og pabbi voru alltaf með einhvers konar tónlist í gangi þannig að lífið einkenndist af tónlist, góðri tónlist,“ segir Karlotta Skagfield Jónasdóttir en lag hennar Play­ground hefur vakið verðskuldaða athygli á Spotify.

Þetta er fyrsta lagið hennar sem kemur út en hún segist hafa verið að syngja og semja svo lengi sem hún man eftir sér. „Eftir að faðir minn, Jónas Viðar Sveinsson, varð bráðkvaddur 2013 þá kom einhvers konar bakslag og ég kom varla upp tóni né gat samið neitt að ráði og hélt mig alveg frá sviðsljósinu. Ég kláraði engu að síður nám í klassískum söng í Söngskóla Reykjavíkur og kom mér aftur á strik hérna úti í London,“ segir hún en hún er búsett þar og nemur tónsmíðar í British and Irish Modern Music Institute, sem hún kallar BIMM.„Eftir að ég flutti hingað og hóf nám í BIMM þá finn ég hvað ég er að yfirstíga bakslagið. Er orðin tilbúin að láta röddina mína heyrast. Það verður einhvers konar kúvending. Eitt kvöldið þegar ég var alveg að sofna þá kom fyrsta laglínan til mín, milli svefns og vöku.

Ég þurfti þá að gjöra svo vel að láta svefninn bíða og grípa penna, gítar, hljómborð og ég veit ekki hvað. Lagið flæddi gjörsamlega yfir mig.“

Svíinn Anton Rung, herbergisfélagi hennar, aðstoðaði við lagið. „Við þekktumst ekkert áður en við fluttum inn í íbúð sem við deilum með öðrum. En með tímanum þá höfum við náð að vinna mjög vel saman að verkefnum. Hann er á „production“-brautinni í sama skóla og býr aðallega til raftónlist. En hann varð mjög hrifin af tónlistinni minni og vildi endilega hjálpa mér að vinna hana betur og upp frá því höfum við verðið að starfa saman.“

Karlotta er fædd í Toscana-héraðinu á Ítalíu. Móðir hennar, Sólveig Baldursdóttir, var að vinna þar með marmara og faðirinn að læra myndlist. Tónlistin er henni í blóð borin en amma hennar er Edda Skagfield söngkona og langafinn er Sigurður Skagfield óperusöngvari.

„Lagið er í rauninni mínar hugleiðingar um fortíðina. Það að maður getur aldrei vitað fyrirfram hvað gerist í lífinu og allt í einu getur öllu verið kippt undan manni. Þá hugsa ég oft til baka þegar ég var yngri og bara það að ég hafði ekki hugmynd um hvernig hlutirnir myndu atvikast. Kannski er þetta mín leið til þess að hlúa að sjálfri mér.“ Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.