Handbolti

Árni Bragi til Kolding

Anton Ingi Leifsson skrifar
Árni Bragi í leik með Aftureldingu.
Árni Bragi í leik með Aftureldingu. VÍSIR/EYÞÓR
Árni Bragi Eyjólfsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið KIF Kolding.

Árni er fæddur og uppalinn í Mosfellsbænum þar sem hann hefur leikið sinn feril en hann var með 3,6 mörk að meðaltali í leik síðasta vetur.

„Ég hlakka til að ganga í raðir KIF. Það var frábært að hitta leikmennina og þjálfarateymið. Kolding er frábært félag með frábæra sögu,“ sagði Árni og bætti við:

„Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að koma félaginu aftur þar sem það á heima, að berjast um meistaratitilinn. Ég get ekki beðið eftir því að byrja.“

Árni Bragi, sem getur bæði leyst hægra horn og hægri skyttu, kemur til með að leysa Kasper Irmings af hólmi en Kasper lagði skóna á hilluna á dögunum.

„Með Árna fáum við stöðugan og hungraðan leikmann í stað Kaspers. Ég hlakka til að sjá Árna í KIF-treyjunni og hlakka til að bjóða hann velkominn fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn,“ sagði stjórnarmaður KIF.

Kolding bjargaði sér frá falli í umspili á leiktíðinni sem var að ljúka en með liðinu leikur FH-ingurinn Ólafur Gústafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×