Golf

Ólafía mjög líklega úr leik

Ísak Jasonarson skrifar
Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, lék í dag annan hringinn á Opna bandaríska mótinu í golfi á 5 höggum yfir pari. Eftir tvo hringi í mótinu er hún að öllum líkindum úr leik en hún er þessa stundina þremur höggum frá niðurskurðarlínunni.

Ólafía, sem lék fyrsta hring mótsins í Suður-Karólínu á parinu, byrjaði ekki nógu vel og fékk tvo skolla á fyrstu þremur holunum. Þá tók við sex holur í röð þar sem Ólafía fékk einungis pör.

Á seinni níu virtist öll von úti um að Ólafía kæmist áfram þegar hún fékk fjórða skolla dagsins á 14. holu en hún vann högg til baka á 16. holu og var þá á þremur höggum yfir pari, einungis höggi frá niðurskurðarlínunni.

Því miður fyrir Ólafíu endaði hún hringinn á tveimur skollum og niðurstaðan því 76 högg eða fimm högg yfir pari.

Þegar fréttin er skrifuð er hin japanska Mamiko Higa í efsta sæti á 7 höggum undir pari.

Beina textalýsingu fréttamans frá hring Ólafíu má sjá hér að neðan. Útsending frá öðrum hring mótsins er á Stöð 2 Sport 4.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.