Skoðun

Guð minn almáttugur

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Spánverjar eiga það til að ákalla hið æðsta yfirvald í tíma og ótíma og mér, mórölskum mótmælandanum, fellur það þungt. Reyndar svo að ég er farinn að svara þessu liði af germanskri gamansemi, þannig að þegar þjakaður drykkjumaður kallar upp yfir sig „æ, senjor“ þá svara ég af yfirlæti: „Já, vinur, hvað var það?“

Þetta var skemmtilegur hrellileikur þar til hlutirnir snerust í höndunum á mér þar sem ég var á gangi úti á torgi en þá heyrði ég einhvern hrópa úr mannþrönginni: „Guð minn almáttugur!“ Og ég svaraði náttúrlega af glettni minni: „Já, hvað var það, vinur?“ Það stóð ekki á svari: „Komdu hérna!“

Ég gekk á hljóðið en brá í brún þegar ég stóð frammi fyrir viðmælanda mínum því hann var blindur og nánast bæði handa- og fótalaus. Á ég nú að standa einhver reikningsskil á þessum örlögum, hugsaði ég með mér meðan ónotatilfinningin var að kvelja mig. Hann er vís með að biðja um bætur eða annað líf. En þetta fór betur en á horfðist því hann sagði að ég væri greinilega gamansamur og bauð mér að verða gjafmildur líka og setja eitthvað í baukinn sinn. Ég vildi endilega standa undir gullhömrunum svo ég spurði hvort hann tæki kreditkort.

Úr varð hinn skemmtilegasti fundur sem fékk mig til að velta vöngum yfir því af hverju ég hef átt það til að forðast fólk sem örlögin hafa leikið grátt og fundist einsog ég skuldaði því eitthvað. En kannski skuldum við því einungis það að taka þeim eins og hverri annarri manneskju. Ég breyttist því eftir fund þennan. En hitt breytist ekkert og Spánverjar halda áfram að ákalla Guð og nú alveg óáreittir.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×