Skoðun

Vonarsnauð vizka

Jón Valur Jensson skrifar
Í pistli hér 9. apríl tók Guðmundur Andri Thorsson þá áhættu að nefna snöru í hengds manns húsi: Icesave-þingmálið, sem hann sjálfur mælti með, sér til vansa, því að þar beitti hann sér gegn hag og rétti þjóðar sinnar og þvert gegn lögspeki EFTA-réttar-dómaranna í sýknudómi þeirra 29. jan. 2013. Guðm. Andri varð að biðja þjóðina afsökunar í Fréttablaðs-grein sem þó gekk hálf út á að „skýra“ og afsaka Icesave-samninga-áróður hans! Það er mikið að marka svona mann eða hitt þó heldur!

Nú lætur Guðmundur Andri eins og það sé hann sem treysti EFTA-réttinum, sem bjargaði okkur í Icesave-málinu, og er að flagga nafni réttarins, vísandi til þess, að hann fái aðkomu að orkupakkamálinu, ef lagalegur ágreiningur kemur upp um það. Þetta eiga að heita meðmæli Guðmundar með 3. orkupakkanum. En hann sér ekki regin-muninn á aðstæðum frá því sem var í Icesave-málinu: Þessi þriðji orkupakki, sem hann er helzt á þeim buxum að greiða atkvæði sitt, kveður einmitt sérstaklega á um það, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og EFTA-dómstóllinn skuli fara í hvívetna eftir fyrirmælum („drögum“) ACER um orkumálin, þ. á m. hér á landi! Guðm. Andri vill aðeins fara eftir EFTA-réttinum af því að nú verður dómstólnum uppálagt að fara eftir þriðja orkupakkanum, okkur í óhag, að vild ESB-stofnunar, ACER!

Það er leitt að sjá flokkspólitískar aðstæður leika meintar vizkuspírur þingflokka svo grátt. Það sama gerðist í dæmi Ara Trausta jarðfræðings á Alþingi 8. apríl, hann var eins og þeytispjald í því að réttlæta hinn stórhættulega pakka fyrir íslenzkar orkulindir og verðlagsmál raforku fyrir landann. VG kaus réttilega gegn 1. og 2. orkupakkanum á sínum tíma, sem tvöfaldaði svo rafmagnsverð hér til húsahitunar, en nú segir Ari hinn trausti, að ef sömu VG-menn ættu að kjósa aftur um 1. og 2. orkupakkann, þá sé allt eins líklegt, að þeir myndu segja já við honum!

Gamlir vinstri róttæklingar, komnir í flokksskjól og undir agavald þingforingja, hringsnúast í málum og hafa sízt þá vizku sem hjálpar þessari þjóð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×