Körfubolti

Finnur Atli: Ætlaði ekkert endilega að spila í vetur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Finnur Atli, til vinstri, fagnar með stuðningsmönnum KR í kvöld.
Finnur Atli, til vinstri, fagnar með stuðningsmönnum KR í kvöld. Vísir/Daníel
Finnur Atli Magnússon átti frábæra innkomu í lið KR sem tryggði sér oddaleik gegn KR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld.

KR vann leikinn, 80-75, og Finnur Atli var næststigahæstur í liði KR með fimmtán stig. Hann setti niður fjögur af fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

„Þetta er draumi líkast. Strákarnir segja alltaf við mig að þegar ég kem inn á þá eigi ég bara að vera óhræddur við að skjóta og það er það sem ég gerði í kvöld. Ekkert að vera hugsa um það, láta það bara flakka.“

Hann segir mikilvægt að fyrsta skotið hafi farið niður strax þegar hann kom inn á í fyrsta leikhluta.

„Það er mikilvægt að komast strax í takt við leikinn. Maður þurfti bara að vera tilbúinn.“

Finnur kom til KR um miðjan nóvember en konan hans, Helena Sverrisdóttir, hafði verið atvinnumaður í Ungverjalandi. Hún gekk í raðir Vals en Finnur Atli samdi við KR.

„Það var ekkert endilega víst að ég ætlaði að vera með. Ég byrjaði í B-liðinu og fannst gaman. Út frá því fékk ég að hlaupa með A-liðinu og þetta hefur þróast út frá því,“ sagði Finnur sem hefur mátt bíða þolinmóður eftir mínútum í úrslitakeppninni.

„Síðan á maður einn góðan leik og maður heldur kannski að maður sé kominn í róteringu í liðinu. En svo fær maður ekkert að spila í næsta leik. Það pirraði mann auðvitað en maður heldur áfram og hefur gaman að þessu. Það er mikilvægt.“

Og Finnur Atli er spenntur fyrir laugardeginum.

„Þetta verður geðveikt,“ sagði hann og brosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×