Körfubolti

Fimmti oddaleikurinn á öldinni og sá þriðji í DHL-höllinni á tíu árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá oddaleik KR og Grindavíkur árið 2009.
Frá oddaleik KR og Grindavíkur árið 2009. Vísir/Daníel
KR og ÍR mætast á morgun í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild karla í körfubolta.

Bæði lið hafa unnið tvo leiki í úrslitaeinvíginu og því þarf fimmta leikinn sem fram fer í DHL-höllinni klukkan 20.00 annað kvöld.

Þetta er fimmti oddaleikurinn á öldinni og sá þriðji sem fer fram í DHL-höll þeirra KR-inga á síðustu tíu árum.

DHL-höllin var full út að dyrum bæði 2009 og 2017 en í báðum leikjum vann KR sigur á Grindavík. Það má einnig búast við troðfullu húsi í Frostaskjólinu annað kvöld.

Alls hafa verið spilaðir ellefu oddaleikir um Íslandsmeistaratitilinn síðan að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1984. Heimaliðið hefur unnið átta þeirra en aðeins þrjú útilið hafa fagnað sigri.

Síðasta útiliðið til að vinna Íslandsmeistaratitilinn í oddaleik var Snæfellsliðið vorið 2010 en Njarðvíkurliðið frá 1994 og Haukaliðinu frá 1988 tókst einnig að tryggja sér titilinn á útivelli.

Oddaleikir um Íslandsmeistaratitilinn:

1985:* Njarðvík 67-61 Haukar

1988:* Njarðvík 91-92 (66-66, 79-79) Haukar

1989:* Keflavík 89-72 KR

1991: Njarðvík 84-75 Keflavík

1992: Keflavík 77-68 Valur

1994: Grindavík 67-68 Njarðvík

1999: Keflavík 88-82 Njarðvík

2009: KR 84-83 Grindavík

2010: Keflavík 69-105 Snæfell

2013: Grindavík 79-74 Stjarnan

2017: KR 95-56 Grindavík

2019: KR 4. maí 2019 ÍR

* Þurfti bara að vinna tvo leiki

Íþróttahús með flesta oddaleiki um Íslandsmeistaratitilinn:

4 sinnum - Keflavík (1989, 1992, 1999 og 2010)

3 sinnum - DHL-höllin (2009, 2017 og 2019)

3 sinnum - Njarðvík (1985, 1988 og 1991)

2 sinnum - Grindavík (1994 og 2013)

Flestir oddaleikir félaga um Íslandsmeistaratitilinn:

5 - Njarðvík (3 sigrar, 2 töp)

5 - Keflavík (3 sigrar, 2 töp)

4 - KR (2 sigrar, 1 tap, 2019)

4 - Grindavík (1 sigur, 3 töp)

2 - Haukar (1 sigur, 1 tap)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×