Körfubolti

Kevin Capers er handleggsbrotinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kevin Capers spilar væntanlega ekki annað kvöld.
Kevin Capers spilar væntanlega ekki annað kvöld. vísir/vilhelm
„KR-ingar tóku fast á honum í öllum leikjum og kvörtuðu svo yfir því að hann væri með leikaraskap. Það endaði með því að þeir handleggsbrutu hann,“ sagði hundsvekktur þjálfari ÍR, Borche Ilievski, eftir að hann fékk ömurleg tíðindi nú seinni partinn.

Stjarna ÍR-liðsins Kevin Capers fór í röntgenmyndatöku í hádeginu og þar kom í ljós að hann er handleggsbrotinn.

„Ég hitti hann á æfingu á eftir en það er nánast engar líkur á því að hann geti spilað með okkur á morgun,“ segir Borche en oddaleikur KR og ÍR um Íslandsmeistaratitilinn fer fram á morgun.

Eins og lesa má hér að ofan er þjálfarinn mjög svekktur yfir meðferðinni sem hans maður hefur fengið í úrslitaeinvíginu.

„Ég er mjög vonsvikinn. Ég er líka svekktur út í dómarana. KR-ingar hafa brotið fast á Kevin og síðan rokið í dómarana og kvartað yfir því að hann sé alltaf að „floppa“. Dómararnir hlusta á þetta og segja mér að fá hann til að passa upp á þetta. Svo brutu þeir hendina hans.“

Það er rétt rúmur sólarhringur í leikinn stóra og ljóst að Borche verður að mæta með nýjar áherslur á æfungu í kvöld.

„Við munum reyna að koma með nýtt plan en getum ekki gert neitt róttækt. Við reynum að hafa þetta einfalt. Svo mætum við í leikinn og seljum okkur dýrt.“

Oddaleikurinn er klukkan 20.00 annað kvöld og er í beinni á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Capers er hugsanlega handleggsbrotinn | Myndband

ÍR varð fyrir miklu áfalli í leiknum gegn KR í gær er stjarna liðsins, Kevin Capers, meiddist og nú er óvissa um hvort hann geti spilað oddaleikinn annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×