Körfubolti

Borche elskar Bubba Morthens

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Borche er með góðan tónlistarsmekk.
Borche er með góðan tónlistarsmekk.
Einn heitasti aðdáandi Bubba Morthens er hinn magnaði þjálfari ÍR, Borche Ilievski, og það truflar hann ekkert að Bubbi skuli vera KR-ingur og syngi þess utan KR-lagið.

„Ég hef verið mikill aðdáandi hans síðan ég þjálfaði á Ísafirði. Það skemmir svo ekki fyrir að hann sé sköllóttur eins og ég. Ég er mikill aðdáandi,“ sagði Borche léttur fyrir fyrsta leik sinna manna gegn KR í úrslitarimmu Íslandsmótsins.

„Það er allt í lagi mín vegna að Bubbi skuli styðja KR og syngja KR-lagið. Við tölum við Bubba eftir þetta og kannski fáum við hann til þess að styðja ÍR aðeins líka.“

Borche tjáði blaðamanni sömuleiðis að hann væri meira en til í að hitta Bubba. Uppáhaldslagið hans með Bubba er síðan „Serbian Flower“ af samnefndri plötu frá árinu 1988 þar sem Bubbi söng lög á ensku. Frábær plata. Serbian Flower er auðvitað „Serbinn“ á ensku.

Þriðji leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni í kvöld klukkan 19.15 og hefst upphitun á Stöð 2 Sport klukkan 18.30. Grillað verður frá 17.30 og hleypt verður inn í húsið klukkan 18.00 og er fastlega búist við því að fólk þurfi að standa á pöllunum í kvöld.

„Það verður stærsta Miðja sögunnar mynduð hjá KR í kvöld. Fólk er komið í gírinn og fólk á öllum aldri er að melda sig inn í stemninguna,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR.

„Þeir sem hafa verið að kalla DHL-höllina bókasafnið verða fyrir vonbrigðum í kvöld.“

Hægt er að tryggja sér miða á netinu og forðast með því biðraðir. Miðasalan er hér.



Klippa: Borche elskar Bubba



Fleiri fréttir

Sjá meira


×