Handbolti

Aron: Verður ekki verra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson var eins og aðrir niðurlútur eftir tap Íslands fyrir Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í kvöld.

„Þetta verður eiginilega ekki verra,“ sagði Aron. Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir en tapaði honum og færði gestunum einnig vítakast sem skóp sigurmark gestanna.

„Við erum með sénsinn en klúðrum þessu á klaufalegan hátt. Svo kemur víti og rautt. Þetta er eiginlega fáránlegt en við getum sjálfum okkur um kennt,“ sagði Aron.

Ómar Ingi Magnússon gerði mistökin afdrifaríku í leikslok. Hann fékk dæmt á sig skref og kastaði boltanum út af vellinum. Fyrir það fékk Makedónía vítakast.

„Ég held að hann Ómar þekki alveg reglurnar og ég þykist vita að hann ætlaði ekki að gera þetta. Þetta var eitthvað sem gerðist í hita leiksins - ég vona það allavega,“ sagði Aron sem fór á kostum í dag og skoraði tólf mörk fyrir Ísland.

„Það gekk mjög vel í sókninni og það er gríðarlega svekkjandi að hafa ekki nýtt sér það. Við spiluðum einfaldan bolta sem þeir réðu ekkert við,“ sagði hann.

„Það dregur líka úr manni að það vantaði hraðaupphlaupsmörkin þar sem að vörn og markvarsla var ekkert spes hjá okkur í dag. Þetta tók því allt saman mjög mikið á. Við fengum á okkur meira en 30 mörk á heimavelli sem er lélegt. Við viljum ekki vera  þekktir fyrir það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×