Handbolti

Guðmundur: Ég hef áhyggjur af markvörslunni í íslenska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Ég er niðurbrotinn. Ég verð að játa það,“ sagði Guðmundur Guðmundsson eftir eins marks tap Íslands fyrir Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í Laugardalshöll í kvöld.

Tapið var eins svekkjandi og það verður. Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir en tapaði honum þegar Ómar Ingi Magnússon fékk dæmt á sig skref. Til að bæta gráu á svart kastaði hann boltanum út af vellinum og fékk fyrir það rautt spjald auk þess sem Makedónía fékk vítakast.

„Það var ömurlegt að upplifa þetta. Þetta var svo mikill óþarfi en réttur dómur miðað við reglurnar. Við þurfum heldur betur að læra af þessu, það er dýrt að kasta þessu frá sér.“

Guðmundur sagði að það hefði ekki verið hægt að kvarta yfir sóknarleik Íslands, enda skorað í nánast hverri sókn. Gallinn var hins vegar sá að Norður-Makedóníumenn gerðu það líka.

„Við náðum aldrei að losa þá frá okkur. Við fengum til dæmis sárafá hraðaupphlaupsmörk. Þetta var erfiður leikur.“

Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson fundu sig ekki í íslenska markinu í dag. „Sem dæmi skorar hægri hornamaðurinn þeirra átta mörk, allt í hornið nær. Maður spyr sig hvernig það getur gerst. Svo byrja þeir að taka skot alls staðar og hvergi, oft langt að utan. Þetta fór því miður allt inn og ansi mikið ólán yfir því.“

En hefur Guðmundur áhyggjur af stöðu markvörslunnar í landsliðinu?

„Ég skal bara játa það að ég hef áhyggjur af stöðu markvörslunnar. Ég verð að segja það. Alveg eins og við gagnrýnum allt í liðinu. Já, ég hef það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×