Körfubolti

Ástrós Lena jafnaði þrista metið í úrslitakeppni kvenna í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ástrós Lena Ægisdóttir fór á kostum í gærkvöldi.
Ástrós Lena Ægisdóttir fór á kostum í gærkvöldi. Vísir/Bára
Ástrós Lena Ægisdóttir, átján ára körfuknattleikskona úr KR, skrifaði nafn sitt í sögubækurnar í gærkvöldi með frammistöðu sinni í úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna.

Ástrós Lena setti alls niður sjö þriggja stiga skot í leik KR og Vals á Hlíðarenda og varð þar með fyrsta konan í tólf ár sem skorar svona marga þrista í einum leik í úrslitakeppni kvenna.

Sú síðasta á undan Ástrós til að ná þessu var Helena Sverrisdóttir í leik með Haukum á móti ÍS í undanúrslitum árið 2007. Helena var þá nýorðin nítján ára en hún var einmitt að keppa á móti Ástrós í gær.

Helena setti niður 7 af 10 þriggja stiga skotum sínum 29. mars 2007 en Ástrós Lena hitti úr 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum í gær.

Ástrós Lena átti mikinn þátt í sigri KR með þessari skotsýningu en hún hafði samtals skorað þrjá þrista í fyrstu tveimur leikjum KR í undanúrslitunum á móti Val og KR-liðið tapaði þeim báðum.

Engin kona hefur skorað fleiri þriggja stiga körfur í einum leik í úrslitakeppninni en Ástrós Lena bættist í hóp með fjórum öðrum skyttum og deila þessar fimm því metinu.

Limor Mizrachi var sú fyrsta til að skora sjö þrista í einum leik en það gerði hún í leik eitt í lokaúrslitnum 1999.

Limor bætti þar fjögurra ára gamalt met Keflvíkingsins Bjargar Hafsteinsdóttur sem var sú fyrsta til að skora sex þrista í einum og sama leiknum í úrslitakeppni kvenna en sá leikur var á móti móti Breiðabliki í lokaúrslitunum 1995.

Flestir þristar í einum leik í úrslitakeppni kvenna:

7 - Ástrós Lena Ægisdóttir , KR á móti Val 11. apríl 2019

7 - Helena Sverrisdóttir, Haukum á móti ÍS 29. mars 2007

7 - Rita Williams, Grindavík á móti Haukum 20. mars 2005

7 - Krystal Scott, Njarðvík á móti KR 21. mars 2003

7 - Limor Mizrachi, KR á móti Keflavík 29. mars 1999




Fleiri fréttir

Sjá meira


×