Körfubolti

„Upprunalega hugmyndin kom frá Martin“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Undir stjórn Israels Martin vann Tindastóll fyrsta stóra titilinn í sögu félagsins.
Undir stjórn Israels Martin vann Tindastóll fyrsta stóra titilinn í sögu félagsins. vísir/bára

„Við lítum björtum augum fram á veginn. Nú þurfum við að finna nýjan þjálfara og púsla utan á okkar kjarna af heimamönnum,“ segir Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, í samtali við Vísi.

Þau tíðindi bárust frá Sauðárkróki í gær að Israel Martin væri hættur þjálfun Tindastóls. Undir stjórn þess spænska urðu Stólarnir bikarmeistarar í fyrra, sem var fyrsti stóri titilinn í sögu félagsins, og komust tvisvar í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftir gott gengi framan af tímabili hallaði undan fæti hjá Tindastóli eftir áramót. Liðið endaði í 3. sæti Domino's deildarinnar og tapaði fyrir Þór Þ., 2-3, í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar eftir að hafa komist 2-0 yfir í einvíginu.

„Þetta kom upp eftir mörg samtöl þegar við vorum að fara yfir tímabilið. Upprunalega hugmyndin kom frá honum,“ segir Ingólfur um starfslok Martins.

Stólarnir eru komnir í þjálfaraleit sem er nýhafin. Tindastóll hefur haft nokkra erlenda þjálfara í gegnum tíðina og Ingólfur útilokar ekki að Stólarnir muni leita aftur út fyrir landsteinana að þjálfara.

„Það er allt opið í þeim efnum. Við verðum að sjá hverjir eru lausir. Mestu skiptir að finna rétta manninn.“

Skilja afstöðu Brynjars

Brynjar stoppaði stutt við á Króknum. vísir/bára

Á föstudaginn bárust þær fréttir frá Sauðárkróki að Brynjar Þór Björnsson væri á förum frá Tindastóli, eftir aðeins eitt ár í herbúðum liðsins, vegna fjölskylduástæðna.

„Við hefðum gjarnan vilja halda honum en skiljum hans afstöðu. Fjölskyldan kemur alltaf fyrst,“ segir Ingólfur sem ber Brynjari vel söguna.

„Þetta voru mjög góð kynni. Hann var bara í eitt tímabil hérna en manni finnst eins og hann hafi verið lengur. Hann var frábær jafnt innan vallar sem utan og kom sterkur inn í unglingastarfið hérna. Það er mikill missir af honum.“

Stefna áfram hátt

Pétur Rúnar Birgisson hefur verið lykilmaður hjá Tindastóli á undanförnum árum. vísir/bára

Ingólfur leggur áherslu á að Tindastóll haldi þeim sterka kjarna heimamanna sem hefur borið liðið uppi á undanförnum árum.

„Við erum að vinna í okkar heimamannakjarna. Við sjáum hvernig hann verður og smíðum svo utan á hann,“ segir Ingólfur sem er bjartsýnn á að halda öllum íslensku leikmönnum Tindastóls.

Stólarnir hafa verið í fremstu röð í íslenskum körfubolta undanfarin ár og markið hefur verið sett hátt í Skagafirðinum. Ingólfur segir að engin breyting verði þar á.

„Við bökkum ekkert með það og stefnum jafnvel hærra,“ segir Ingólfur að endingu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.