Körfubolti

Gæddi sér á snakki eftir endurkomuna sögulegu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Williams leggur boltann ofan í körfuna án þess að Kevin Durant komi vörnum við.
Williams leggur boltann ofan í körfuna án þess að Kevin Durant komi vörnum við. vísir/getty
Þrátt fyrir að lenda mest 31 stigi undir vann Los Angeles Clippers magnaðan sigur á meisturum Golden State Warriors, 131-135, í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Vesturdeildarinnar í NBA í nótt. Staðan í einvíginu er jöfn, 1-1. Vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram í næstu umferð.

Sigur Clippers var sögulegur en aldrei hefur lið komið til baka og unnið eftir að hafa lent jafn mörgum stigum undir í leik í úrslitakeppni NBA. Þetta er jafnframt mesta endurkoma í sögu Clippers.

Lou Williams átti frábæran leik fyrir Clippers í nótt. Hann skoraði 36 stig og gaf ellefu stoðsendingar. Tólf stiganna komu í 4. leikhluta sem Clippers vann, 41-23.

Eftir sigurinn ótrúlega gæddi Williams sér á snakki á meðan hann hékk í símanum. Clippers birti skemmtilega mynd af þessum hófstillta fagnaði skotbakvarðarins á Twitter.





Þrátt fyrir að byrja nánast undantekningarlaust á bekknum er Williams stigahæsti leikmaður Clippers á tímabilinu með 20,0 stig að meðaltali í leik. Hann er einnig með 3,0 fráköst og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Williams þykir mjög líklegur til að vera valinn besti sjötti leikmaður NBA-deildarinnar. Hann fékk þau verðlaun 2015 og 2018.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×