Handbolti

Bæjarstjórasonurinn á leiðinni í þýska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson.
Viggó Kristjánsson. vísir/ernir
Íslenski handboltamaðurinn Viggó Kristjánsson mun spila í Leipzig á næsta tímabili.

Viggó hefur gert tveggja ára samning við þýska úrvalsdeildarliðið SC DHfK Leipzig samkvæmt heimildum íþróttadeildar Sýnar.

Leipzig er í 15. sæti bundesligunnar í dag með 16 stig og átta stigum frá fallsæti þegar átta umferðir eru eftir.

Viggó er 25 ára gamall (fæddur í desember 1993) og spilar sem örvhent skytta. Hann er uppalinn í Gróttu á Seltjarnarnesi en hefur spilað sem atvinnumaður frá árinu 2016.

Viggó er sonur Ásgerðar Halldórsdóttur sem er bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og einnig kjörinn bæjarfulltrúi eftir að hafa skipað fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum.  

Á síðasta tímabili sínu með Gróttu skoraði hann 117 mörk í Olís-deildinni og hjálpaði liðinu að ná fimmta sætinu í deildinni.

Fyrst var Viggó hjá danska félaginu Randers eftir að hann fór út en undanfarin tvö tímabil hefur hann spilað með SG Handball West Wien í austurrísku deildinni.

Viggó er búinn að spila mjög vel með West Wien í vetur en hann er með 99 mörk í 18 leikjum á leiktíðinni eða 5,5 mörk að meðaltali í leik.

Viggó mun væntanlega keppa um örvhentu skyttustöðuna hjá Leipzig við hinn 21 árs gamla Franz Semper sem hefur spilað mjög vel í vetur og er tíundi markahæsti leikmaðurinn í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×