Handbolti

Ragnheiður: Vonandi klárum við þetta á fimmtudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnheiður og stöllur hennar eru einum sigri frá sæti í úrslitaeinvíginu.
Ragnheiður og stöllur hennar eru einum sigri frá sæti í úrslitaeinvíginu. vísir/bára
Ragnheiður Júlíusdóttir, stórskytta Fram, skaut ÍBV í kaf í leik liðanna í Eyjum í kvöld. Hún skoraði 13 mörk úr aðeins 15 skotum og átti hvað stærstan þátt í sigri Fram, 29-34.

„Ég er mjög ánægð með þennan leik. Við byrjuðum mjög vel, létum boltann ganga vel í sókninni og vörnin var mjög góð. Við vorum alltaf 5-6 mörkum á undan þeim,“ sagði Ragnheiður við Vísi eftir leikinn.

Sóknarleikur Fram gekk eins og í lygasögu í fyrri hálfleik þar sem liðið skoraði 20 mörk og var með 80% skotnýtingu.

„Það er ekki hægt að gera mikið betur en það. Að sama skapi fengum við á okkur 29 mörk í leiknum og það er kannski aðeins of mikið. En ég er mjög ánægð með leikinn,“ sagði Ragnheiður.

„Einbeitingarleysi gerði vart við sig á köflum hjá okkur. Þegar þær komu með áhlaup myndaðist stemmning í stúkunni en við ákváðum að vera yfirvegaðar og spila aðeins betur.“

Með sigri í þriðja leik liðanna á fimmtudaginn tryggir Fram sér sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.

„Ég vona að það takist. Ég væri alveg til í að sleppa við að koma hingað aftur. Það væri geggjað,“ sagði Ragnheiður að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×