Enski boltinn

Gott að fá Harry Kane til baka eða ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Getty/Christopher Lee
Markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar tvö af síðustu þremur tímabilum hefur ekki lífgað upp á leik Tottenham þegar hann snéri til baka úr meiðslum. Þvert á móti gengi liðsins hefur hrunið eftir endurkomu Harry Kane.

Tottenham tapaði 2-1 á móti Southampton    um helgina þrátt fyrir að komast í 1-0 og vera með forystuna fram á lokakafla leiksins. Nú er liðið dottið út úr allra titilbaráttu og það sem meira er að liðin fyrir neðan eru komin hættulega nálægt.

Tottenham er enn í þriðja sæti en nú bara einu stigi frá fjórða sætinu og þremur stigum frá fimmta sætinu. Frekara basl gæti kostað Spurs liðið sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Tottenham var búið að vinna fjóra deildarleiki í röð þegar enski landsliðsframherjinn Harry Kane snéri til baka úr meiðslum.

Fjórum leikjum síðar hefur aðeins eitt stig bæst við stigafjölda Tottenham í deildinni. Harry Kane hefur reyndar skorað í þremur af þessum fjórum leikjum en bestu úrslitin er 1-1 jafntefli á móti Arsenal þar sem Arsenal liðið klikkaði á vítaspyrnu í lokin.

Hinir þrír leikirnir hafa tapast á móti Burnley, Chelsea og Southampton. Tvö af þeim eru í fallbaráttu deildarinnar eða Burnley og Southampton.





Harry Kane meiddist á ökkla í 1-0 tapi á móti Manchester United 13. janúar. Hann var frá keppni þar til 23. febrúar.

Á meðan spilaði Tottenham fjóra leiki og þeir unnust allir. 2-1 sigur á Fulham, 2-1 sigur á Watford, 1-0 sigur á Newcastle og 3-1 sigur á Leicester. Suður-Kóreumaðurinn Son Heung-min skoraði í þremur leikjanna þar á meðal sigurmarkið á móti Newcastle.

Harry Kane fór beint inn í byrjunarliðið og spilaði við hlið Son Heung-min. Í leikjunum á undan var Son við hlið spænska framherjans Fernando Llorente.

Það er kannski erfitt að gagnrýna leikmann sem hefur skorað öll mörk Tottenham í síðustu fjórum deildarleikjum en úrslitin með eitt stig í húsi af tólf mögulegum tala sínu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×